Nokkur munur er á vísitölum Fasteignaskrár og Hagstofunnar yfir verðbreytingar á húsnæði. Síðarnefnda stofnunin notast við grunngögn Fasteignaskrár. Tölur Fasteignaskrár benda til nokkuð meiri lækkunar húsnæðis en undirvísitala vísitölu neysluverðs Hagstofunnar sýnir.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni eru tölurnar ekki fyllilega sambærilegar þó að Hagstofan noti grunntölur Fasteignaskrár til að reikna út vísitölu húsnæðisverðs. Munurinn felst einkum í aðferðum en Hagstofan notast við hlaupandi þriggja mánaða meðaltal á meðan Fasteignaskrá sýnir mánaðarlega breytingu í sinni vísitölu.

Hagstofan tekur einnig makaskiptasamninga með í sínum útreikningum en Fasteignaskrá ekki. Sem dæmi má nefna að lækkun á fasteignaverði fjölbýlis á höfuðborgarsvæðinu síðastliðna tólf mánuði mælist um 1,9% hjá Fasteignaskrá en einungis um 0,05% hjá Hagstofunni. Fasteignaskrá tekur eingöngu saman breytingar á fasteignaverði á höfuðborgarsvæðinu en þar er um 70% húsnæðis.

Á síðasta ári hefur fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu lækkað um 3,2%, einbýli lækkað um 5,8% en fasteignir á landsbyggðinni hækkað um 8,5% samkvæmt upplýsingum frá Hagstofunni.