„Sonur minn Matthias heldur að Icesave og Ice Age 3 séu einn og sami hluturinn. Ég skil vel þennan rugling,“ segir Lars Christensen, forstöðumaður hjá danska bankanum Danske Bank, sem hefur um nokkurra ára skeið fylgst með þróun íslensks efnahagslífs. Þegar hann skrifaði ásamt fleirum ítarlega skýrslu um frekar neikvæðar horfur hér vorið 2006 og hugsanlegt efnahagshrun undir heitinu The Geysir Crisis var hann gagnrýndur harkalega. Lars Christensen hefur komið hingað í tvígang síðan þá, síðast í haust og rætt um efnahagshorfur.

Christensen hefur skrifað í tvígang um niðurstöðu EFTA-dómstólsins í Icesavemálinu á Facebook-síðu sinni í dag. Í fyrra skiptið sagði hann: Til hamingju Ísland.

Í hitt skiptið hafði hann orð á því að sonur sinn hafi ruglað saman Icesave-málinu og þriðju teiknimyndinni um Ísöldina (e. Ice Age) sem í mjög stuttu máli fjallar um endalausa leit Skrat að hnetu og alls konar dýrum sem nú eru útdauð.

„Ég skil ruglinginn. Ég var í sjónvarpsviðtali að tala um Icesave á sama tíma og hann horfði á Ísöldina 3,“ skrifar Christensen en bendir á að sonurinn hafi ekki verið sá eini sem hefði ruglast: „Blaðamaðurinn viðurkenndi að þetta ruglaði hann líka.“