Við útskrift í gær á Mætti kvenna, rekstrarnámi fyrir konur í atvinnurekstri á landsbyggðinni, gagnrýndi Runólfur Ágústsson rektor harðlega þær hugmyndir að safna helstu háskólum og rannsóknarstofnunum landsins á einn stað í miðborg Reykjavíkur. Runólfur sagði slíkar hugmyndir í besta falli úreltar og í versta falli til þess fallnar að skipta þjóðinni í tvær þjóðir: Þróað þekkingarsamfélag á höfuðborgarsvæðinu og vanþróað frumframleiðslusamfélag á landsbyggðinni. Runólfur spurði hvort þetta væri vilji Íslendinga.

Í ræðunni sagði rektor m.a. orðrétt:

?Við landsbyggðarfólk erum að sumu leyti sett hjá í þeim öru breytingum sem eru að verða, og eiga eftir að verða í enn ríkara mæli, á atvinnuháttum í þessu landi. Atvinnuháttum þar sem sífellt færri vinna að frumframleiðslu og sífellt fleiri hafa lifibrauð sitt af ýmis konar þekkingar- og þjónustustarfsemi.

Ég tel að framtíð okkar sem höfum kosið okkur búsetu í hinum dreifðu byggðum þessa lands, muni ráðast af því að hér verði breyting á. Að við verðum eins sett með aðgengi að menntun, þekkingu og upplýsingum og aðrir landsmenn. Svo er ekki í dag. Ég þarf ekki að segja sumum ykkar neitt um tengingar, netsamband eða aðgengi að interneti. Þær hindranir sem þið búið þar við þekkið þið og hafið reynt á eigin skinni. Ég vil hins vegar nota hér tækifærið og hvetja stjórnvöld til að setja þessi mál í algeran forgang. Mikið hefur áunnist í samgöngumálum á undanförum árum mjög víða, en án upplýsingakerfis fyrir alla eru íbúar hinna dreifðu byggða settir hjá. Án þess hafa þeir ekki sömu möguleika til náms og atvinnu og aðrir. Í slíkum tilvikum mun fólk nýta vegina til að aka suður. Ljósleiðarar, þráðlaus netsambönd og almennt aðgengi að upplýsingum og þekkingu eru hraðbrautir framtíðarinnar. Þar duga engar hestagötur. Þær verður að byggja upp fyrir alla þegna þessa lands eigi það að haldast í byggð og allir Íslendingar verða að hafa möguleika á að taka þátt í þessu samfélagi framtíðarinnar. Verði þessi mál ekki sett í forgang munum við upplifa tvær þjóðir í einu landi. Þá sem eru þátttakendur í þekkingarsamfélaginu og þá sem eru það ekki. Þá sem eiga möguleika og þá sem án þeirra eru. Slíkt gengur ekki og hér hafa stjórnvöld mikið og þarft verk að vinna. Myndun þekkingarsamfélags á öllu Íslandi hlýtur að vera forgangsverkefni stjórnmálamanna og -kvenna næstu misserin. Í þeim efnum upplifum við nú ákveðna ögurstund.

Þekkingunni á ekki að safna saman á einn stað, fjárfestingu í þekkingargeiranum á ekki að beina á einn stað. Þekkingarsamfélagið á að vera óháð stað og stund, alls staðar, alltaf. Sú hugmyndafræði að þekkingarsamfélagið geti verið staðbundið eða að það eigi að vera staðbundið er að mínu mati beinlínis hættuleg framtíð lands og þjóðar. Þekkingarsamfélagið Ísland verður að taka yfir allt Ísland en ekki einstaka hundaþúfu, hvort sem hún heitir Vatnsmýri eða eitthvað annað. Sú hugmynd að þar safnist saman ekki einungis stærstu háskólar landsins, heldur einnig helstu rannsóknarstofnanir þess og þekkingarfyrirtæki er því vond hugmynd. Þekkingarfyrirtæki, þekkingarstofnanir og opinberar þekkingarfjárfestingar eiga að flæða um samfélagið allt. Sú hugsun að þekkingu eigi að loka inni í húsum á ákveðnum tilgreindum stöðum var góð og gild á miðöldum þegar klaustur og háskólar voru varðveislustaðir þekkingarinnar. Í dag er slík hugmyndafræði í besta falli úrelt og í versta falli til þess fallin að skipta þjóðinni í tvær þjóðir: Þróað þekkingarsamfélag á höfuðborgarsvæðinu og vanþróað frumframleiðslusamfélag á landsbyggðinni. Viljum við slíkt?"