Útflutningur á koníaki dróst saman um tæp 7% árið 2014 vegna minnkandi eftirspurnar á Asíumarkaði. Mikill viðsnúningur hefur orðið á þessu ári. Nýjustu tölur sýna að útflutningur hefur aukist um 21% það sem af er ári.

Aukin eftirspurn frá Norður-Ameríku skýrir meðal annars hvers vegna koníakssala hefur tekið við sér. Einnig hafa gríðarlegar vinsældir Hennessy koníaks í Kína drifið söluna áfram.

Framleiðsla koníaks skiptist í grunninn í nokkra flokka og er ódýrasta og yngsta vínið kalla VS (very special). Þar á eftir kemur VSOP (very superior old pale) og svo XO (extra old). Langmest var flutt út af VS koníaki í september og nam útflutningurinn á því um helmingi af heildarútflutningi mánaðarins. VSOP vínin komu næst með 39,4% og XO 11%.

Greint er frá þessu á vefsíðu tímaritsins Harpers Wine & Spirits .