Samdráttur var í dönsku efnahagslífi á fjórða ársfjórðungi síðasta árs og minnkaði verg landsframleiðsla um 0,9%. Er Danmörk þar með komin í hóp ríkja eins og Þýskalands, Frakklands og Bretlands þar sem einnig var samdráttur á þessu tímabili.

Í frétt Børsen segir að samdrátturinn hafi verið mun meiri en búist hafði verið við, en almennt spáðu hagfræðingar því að landsframleiðsla myndi dragast saman um 0,3% á fjórðungnum.

Á móti kemur að endurskoðaðar tölur fyrir þriðja ársfjórðung sýna vöxt vergrar landsframleiðslu í Danmörku upp á um 0,8% í stað 0,3% áður.

Í Evrópusambandinu í heild mældist 0,5% samdráttur vergrar landsframleiðslu á fjórða ársfjórðungi og í Bandaríkjunum nam samdrátturinn 0,1%.