Samkeppniseftirlitið hefur sett Arion banka ákveðin skilyrði um framkvæmd á rekstri þrotabús BM Vallár sem bankinn yfirtók eftir gjaldþrot félagsins í maí.

„Yfirtaka Arion banka á tilteknum eignum B. M. Vallár hf. felur í sér samruna í skilningi 17. gr. samkeppnislaga nr. 44/2005. Með heimild í 17. gr. samkeppnislaga eru samrunanum sett skilyrði.”

Þá segir í ákvörðunarorðum eftirlitsins að með setningu skilyrða sé ekki þörf á ógildingu samrunans.

Vísar Samkeppniseftirlitið í 17 kjarnasjónarmið eftirlitsins sem sett voru fram um hvernig hátta eigi yfirtöku íslenskra fyrirtækja sem eiga í skuldavanda. Þar segir m.a. að einungis eigi að koma þeim fyrirtækjum til aðstoðar, sem eiga sér eðlilegar rekstrarlegar forsendur en forðast ber að endurreisa eða halda gangandi óhagkvæmum fyrirtækjum. Tryggja verði að eignarhald banka raski ekki samkeppni. Þá er Arion banka gert skylt að selja eignarhlut sinn í BM Vallá eins fljótt og verða megi.

„Leitast skal við að selja eignarhlut bankans í BM Vallá í fyrirfram skilgreindu og gagnsæju ferli, t.d. í opnu söluferli eða með skráningu í kauphöll.”

Yfirtaka Arion banka á BM Vallá náði til tiltekinna eigna þrotabús félags sem starfaði undir merkjum BM Vallár og eftir atvikum dótturfélaga þess samkvæmt því fram kemur í samrunaskrá. Tók Arion banki þannig yfir steinsteypusölu BM Vallár ásamt sölu á hellum, steinum, garðeiningum og múrvörum. Þá eignast bankinn jafnframt færanlega steypustöð og framleiðslu ýmiskonar smáeininga sem fram hefur farið í Garðabæ.

Bendir Samkeppniseftirlitið á augljós hagsmunatengsl bankans í fasteignageiranum sem væntanlega geti skapað hættu á að BM Vallá njóti betri kjara hjá bankanum en mögulegir samkeppnisaðilar.

„Arion banki er viðskiptabanki og með starfsleyfi sem slíkur skv. lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt því sem fram kemur í samrunaskrá hefur bankinn yfirráð yfir ýmsum félögum sem tengjast starfsemi hans með beinum hætti en jafnframt öðrum sem telja verður hliðar- og tímabundna starfsemi sbr. 21. og 22. gr. laga um fjármálafyrirtæki. Á meðal þessara félaga eru Hafrahlíð ehf., Rekstrarfélagið Vélar og þjónusta ehf. og Penninn á Íslandi ehf. Þá hefur Arion banki tekið yfir fleiri rekstrarfélög sem Samkeppniseftirlitið hefur fjallað samanber m.a. ákvörðun nr. 6/2010 Yfirtaka Arion banka hf. á 1998 ehf. Þá er Arion banki stærsti hluthafinn í Reitum fasteignafélagi en félagið er fyrirferðarmikið á markaði fyrir útleigu verslunar- og atvinnuhúsnæðis sbr. ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 15/2010 Yfirtaka Arion banka, NBI, Íslandsbanka, Haf funding og Glitnis á Reitum . Fara nokkur félög með sameiginleg yfirráð yfir Reitum.”

Þá segir Samkeppniseftirlitið að markmið ákvörðunar þess sé að tryggja að viðskiptatengsl Arion banka við fyrirtæki sem starfa á sömu eða skyldum mörkuðum og BM Vallá skaði ekki samkeppni á meðan BM Vallá eru undir beinum yfirráðum Arion banka. Skal bankinn í því skyni tryggja sjálfstæði BM Vallár á samkeppnismarkaði.

„Eignarhald BM Vallár skal falið sérstöku eignarhaldsfélagi. Eignarhlut bankans í BM Vallá skal komið fyrir í eignarhaldsfélagi í eigu bankans. Hefur Arion banki hf. stofnað félagið Eignabjarg ehf. (hér eftir Eignabjarg) í þessum tilgangi. Skal þetta gert eigi síðar en 1. desember nk.”