*

sunnudagur, 16. júní 2019
Innlent 10. júní 2019 18:04

Samþættingin hefur gengið vel

Kvika hefur á síðustu árum vaxið töluvert og tekið ýmsum breytingum. Nýr forstjóri er ánægður með hvernig til hefur tekist.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Kvika hefur á síðustu árum vaxið töluvert. Kvika varð til með samruna MP banka og Straums og með honum var lagður grunnurinn að Kviku eins og félagið er núna. Kaup á Virðingu og Öldu sjóðum árið 2017 höfðu einnig mikil áhrif og svo kaupin á GAMMA sem gengu í gegn í mars síðastliðnum. Að sögn Marinós Armar Tryggvasonar, nýs forstjóra Kviku, hefur samþættingin við Virðingu og Öldu gengið vel og býst hann við því sama af GAMMA.

„Þetta hefur í raun gengið ótrúlega vel með Virðingu og Öldu. Það voru sett ákveðin markmið sem voru kynnt á hluthafafundi og þau hafa náðst. Sú samþætting gekk bæði vel hvað varðar að þjappa hópnum saman auk þess sem fjárhagslegu markmiðin náðust. Hvað varðar GAMMA þá kom félagið inn í samstæðuna í byrjun mars og þetta er auðvitað alltaf áskorun að ná að samþætta rekstur ólíkra félaga. Fólk þarf að taka á honum stóra sínum til að þetta gangi vel. Ég held hins vegar að það séu allar forsendur til staðar svo að kaupin á GAMMA gangi bara eins og með hin félögin. Þetta mun hins vegar taka nokkra mánuði.

Stefnan er eins og við höfum gefið út á markaðinn að við erum að flytja ákveðna sjóði frá GAMMA inn í Júpíter og svo ákveðin verkefni úr eignastýringu Kviku inn í GAMMA og erum með því að auka sérhæfingu. Hugmyndin er að markaðsbréf og skráð og óskráð skuldabréf séu inni í Júpíter á meðan fasteignaverkefni og mögulega seinna önnur verkefni verða inni í GAMMA þannig að verkaskiptingin sé skýr."

Samfara áðurnefndum kaupum fór Kvika í stefnumótunarvinnu á síðasta ári þar sem skerpt var á stefnu bankans til framtíðar. „Það komu allir starfsmenn að þessu þar sem  skoðað var hvað væri mikilvægast og hvað ætti að einkenna bankann og annað þvíumlíkt. Svo var þetta sett upp í fjórum aðalpunktum þar sem var meðal annars ákveðið að gildi bankans ætti að vera langtímahugsun sem ég er mjög ánægður með. Þetta var gert á svipuðum tíma og verið var að skrá bankann á markað.

Ein gagnrýni sem hefur verið sett á fyrirtæki á markaði er að þau hugsa til of skamms tíma þar sem stjórnendur telja sig þurfa að hámarka hagnað á hverjum ársfjórðungi. Með því að setja inn að það sé hugsað til lengri tíma þá getur það hjálpað starfsmönnum að beina hugsunum sínum í þá átt. Þegar menn eru í innri rökræðu eða rökræðu við einhvern annan þá er miklu auðveldara að fórna skammtímahagsmunum fyrir langtíma ef stefna bankans styður við það. Það að banki sé með eitt gildi við að hugsa til lengri tíma hjálpar við að taka ákvarðanir. Að þessu sögðu verður að taka tillit til þess að lengri tími er settur saman úr mörgum skemmri tímabilum. Þú þarft að vinna skynsamlega en menn mega ekki fórna langtíma hagsmunum fyrir eitthvað sem hjálpar til skemmri tíma."

Stikkorð: Kvika
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is