Reykjavíkurborg og Samtökin '78 undirrituðu í dag tvo samninga sem kveða á um greiðslu borgarinnar til samtakanna er varða rekstur samtakanna annars vegar og þjónustu hins vegar. Samtals hljóða samningarnir upp á 15 milljónir króna sem dreifast á þrjú ár, er fram kemur í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.

Samtökin ´78 munu sjá um fræðslu um stöðu samkynhneigðs, tvíkynhneigðs, pankynhneigðs, asexual, intersex og transgender fólks, nefnt hinsegin fólk, í grunnskólum Reykjavíkurborgar. Kennslan nær bæði til nemenda og starfsfólks, en einnig verður greitt til reksturs samtakanna, fræðslu og ráðgjafaþjónustu.

Markmið með samningi um fræðslu í grunnskólum er að samtökin skipuleggi og framkvæmi fræðslufundi fyrir nemendur, kennara og aðra þá sem starfa hjá grunnskólum Reykjavíkurborgar. Langtímamarkmið fræðslustarfsins er að gera kennara og aðrar fagstéttir smám saman sjálfbjarga í fræðslu um málefni hinsegin fólks, er fram kemur í tilkynningunni.

Samningarnir gilda til 31. desember 2017. Sagði Líf Magneduóttir, formaður mannréttindaráðs, við undirritun samninganna að það væri mikikvægt að stjórnvöld standi með hvers kyns mannréttindabaráattu og hlusti á raddir þeirra sem eru í framlínu þeirrar baráttu.

Þess vegna sé það gleðiefni að Reykjavíkurborg skuli endurnýja samninginn við Samtökin '78 með áherslu á aukna fræðslu í skólum í samstarfi við kennara og Jafnréttisskólann og aukna ráðgjöf til viðkvæms hóps hinsegin fólks. Hún sagði samninginn mikilvægan lið í því að styðja Samtökin enn frekar í baráttu gegn fáfræði og fordómum og hann yrði vonandi bæði ríki og öðrum sveitarfélögum hvatning til að gera álíka samninga.