Þýski ökuþórinn Michael Schumacher er vaknaður úr dái sem hann hefur verið í síðan í lok síðasta árs, eftir að hann slasaðist alvarlega á höfði á skíðum í frönsku Ölpunum. Í frétt RÚV segir að umboðsmaður Schumachers hafi tilkynnt þetta fyrir skömmu.

Schumacher var haldið sofandi í 169 daga eftir að hann datt á skíðum og hlaut alvarleg höfuðmeiðsl. Byrjað var að vekja hann úr dáinu hægt og gætilega í janúar. Þýskir fjölmiðlar greindu frá því í apríl að hann væri byrjaður að sýna viðbrögð og væri öðru hverju við meðvitund.