Seðlabankar heims keyptu samtals 1.136 tonn af gulli að andvirði tæplega 70 milljarðar dala, eða nærri 10 þúsund milljörðum króna, árið 2022 samkvæmt World Gold Council. Seðlabankar hafa ekki keypt meira af gulli í frá árinu 1967 samkvæmt gögnum samtakanna.

Í umfjöllun Reuters segir að gögnin gefi enn frekar til kynna breytt viðhorf seðlabanka til gullviðskipta í kjölfar fjármálahrunsins árið 2008. Frá árinu 2010 hafa þeir verið nettó kaupendur af gulli á ársgrundelli.

Í skýrslu WGC samtakanna segir að eftirspurn seðlabanka eftir gulli megi einkum rekja til stöðugs verðgildis á óvissutímum ásamt því að málmurinn hentar vel til geymslu. Gull hentar því vel til að geyma verðmæti til lengri tíma.

Verð á gulli hefur hækkað um tæplega 8,5% á síðustu sex mánuðum og stendur nú í tæplega 1.900 dölum á únsu.