Seðlabankastjórum verður fjölgað úr einum í þrjá og embætti aðstoðarseðlabankastjóra lagt niður. Þá er sú breyting kynnt til sögunnar að ekki verður upplýst opinberlega um nöfn umsækjenda að stöðu seðlabankastjóra.

Þetta er á meðal tillagna sem nefnd um heildarendurskoðun laga um Seðlabanka Íslands leggur til í skýrslu sem hún hefur skilað til fjármála- og efnahagsráðherra, að því er heimildir DV herma .

Samkvæmt heimildum DV er lagt upp með að það verði einn aðal seðlabankastjóri. Þá verði að auki annars vegar seðlabankastjóri sem beri ábyrgð á fjármálastöðugleika og hins vegar seðlabankastjóri sem hafi umsjón með verðstöðugleika.

Sú breyting sem jafnframt er lögð til að horfið verði frá því að greina opinberlega frá þeim einstaklingum sem sækja um stöðu seðlabankastjóra er gerð í því skyni að auka líkur á því að fleiri umsóknir berist frá hæfum umsækjendum.