Andri Már Ingólfsson, forstjóri og eigandi Primera Air, segir flugfreyjur hjá fyrirtækinu fá margfalda þá upphæð í laun sem nefnd hefur verið í fréttaflutningi af fyrirtækinu og að það sé vandræðalaust af hálfu fyrirtækisins að sýna óháðum aðila þær tölur ef þörf er talin á. Hann hyggist ekki birta þessar tölur opinberlega, en að lægstu laun séu 4-6 sinnum hærri en nefnt hefur verið í fjölmiðlum.

Í yfirlýsingu segir Andri Már að ástæða þess að nota að hluta erlendar áhafnir nú hluta vetrar, sé sú að þær áhafnir eru hluti af áhöfnum fyrirtækisins í París, en þar eru Primera Air með umfangsmikla starfsemi, og býður þessum flugliðum tímabundið vinnu á Íslandi til að halda þeim fram á sumar og viðhalda þjálfun þeirra. Áfram verði notast við íslenskar flugfreyjur eins og kostur er að hluta til eins og verið hefur áður.

Hvað varðar uppsagnir í Svíþjóð segir Andri Már að verið sé að flytja starfsemina undir lettneskt flugrekstrarleyfi, en unnið hefur verið undir dönsku leyfi hingað til. Það sé í hagræðingarskyni og eðlileg ráðstöfun. Margir af þeim aðilum sem hafa unnið fyrir fyrirtækið í Stokkhólmi vinni áfram fyrir Primera undir nýju leyfi.