Starfsmaður Fjármálaeftirlitsins segir Jónas Fr. Jónsson, þáverandi forstjóra, ekki vilja aðhafast eftir að eftirlitið komst að kaupum Fyrirtækjabréfasjóðs Landsvaka á 400 milljóna króna skuldabréfi útgefnu af Björgólfi Guðmundssyni. Jónas Fr. segist ekki minnast þessa.  Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Viðskiptablaðið greindi frá því í dag að kaup sjóðsins á skuldabréfi Björgólfs séu til rannsóknar hjá embætti sérstaks saksóknara. Björgólfur Guðmundsson var, ásamt syni sínum Björgólfi Thor, stærsti einstaki eigandi Landsbankans og formaður bankaráðs hans. Landsbankinn er eigandi Landsvaka.

Tóku fyrst eftir bréfinu þremur árum eftir að það var keypt

Á fyrri hluta ársins 2008, þremur árum eftir að skuldabréfið var keypt, gerð FME í fyrsta sinn athugasemd við kaup Fyrirtækjasjóðsins á skuldabréfi Björgólfs, en það hefur eftirlit með starfsemi verðbréfa- og fjárfestingasjóða. FME sendi þá orðsendingu til Landsvaka þar sem meðal annars sagði: „Athugasemd FME í febrúar 2008, skýrsla um sundurliðun fjárfestinga m.v. 31.12.07. í skýrslunni kemur fram að sjóðurinn fjárfesti í skuldabréfi [...]útgefnu af Björgólfi Guðmundssyni. FME óskar eftir upplýsingum um ástæður þess að farið var í þessa fjárfestingu og hvaða tryggingar sjóðurinn hefur fyrir greiðslu bréfsins“.

Landsvaki sendi svar til FME þann 14. mars 2008 þar sem meðal annars kom fram að viðkomandi skuldari væri talin „afar traustur“ og að á þeim tíma hefðu  almennt ekki verið teknar „tryggingar fyrir einstökum útgáfum“.

Segir Jónas ekki hafa viljað aðhafast

Sara Sigurðardóttir, starfsmaður FME, greindi rannsóknarnefndinni frá því við skýrslutökur fyrir henni að hún hafi greint Jónasi Fr. Jónssyni, þáverandi forstjóra FME, frá kaupum sjóðsins á bréfinu. Að hennar mati ætti FME að gera kröfu um að Fyrirtækjabréfasjóðurinn seldi bréfið.

Að sögn Söru „mun Jónas ekki hafa viljað aðhafast þar sem ekki höfðu verið gerðar athugasemdir við fjárfestinguna áður“.  Jónas Fr. Jónsson segist ekki minnast þessa samtals í bréfi sem hann sendi rannsóknarnefndinni í febrúar 2010.

Skýrsla rannsóknarnefndarinnar segir að fyrir liggi að FME hafi sent Landsvaka áminningarbréf vegna skuldabréfsins þar sem rekstarfélagið er beðið um að „haga fjárfestingum sjóða sinna þannig að þær falli undir gildandi fjárfestingastefnu sjóðanna“. Enginn frestur var hins vegar gefinn til að selja skuldabréfið og engum stjórnvaldssektum hótað. Bréfið var enn í Fyrirtækjabréfasjóðnum þegar Landsbankinn féll í október 2008.

Reynt að fá bréfið uppgert eftir bankahrun

Eftir bankahrunið var reynt að fá skuldabréfið uppgert. Tryggvi Tryggvason, sem tók við  starfi framkvæmdastjóra Landsvaka eftir bankahrun, sagði rannsóknarnefndinni að Björgólfi Guðmundssyni hefði verið boðið að kaupa bréfið en „hann óskaði ekki eftir því og að lokum var hluta upphæðarinnar skuldajafnað á móti eignum Björgólfs í öðrum sjóðum Landsvaka. Fullar heimtur fengust hins vegar ekki á bréfinu“.

Sú eign sem var skuldajafnað var eign sem Björgólfur hafði átt í gjaldeyrissjóði sem Landsvaki rak. Björgólfur Guðmundsson er persónulega gjaldþrota og nema kröfur í bú hans 96 milljörðum króna. Þrotabú hans er ekki sátt við ofangreinda skuldajöfnun og telur að kröfuhöfum hans hafi verið mismunað með henni. Það hefur því stefnt Landsvaka og vill rifta gjörningnum. Málið verður tekið fyrir 7. desember næstkomandi.