Staða Adams Kids í Bretlandi hefur engin áhrif á rekstur Adams í Smáralandi. Engin fjárhagsleg tengsl eru milli verslunarinnar hér á landi og keðjunnar úti.

Þetta segir Eggert Þór Aðalsteinsson, eigandi Adams í Íslandi í samtali við Viðskiptablaðið.

Hann segir að verslunin í Smáralind sé með sérleyfi hér á landi og því muni staða keðjunnar í Bretlandi engin áhrif hafa hér. Reksturinn hér heima gangi vel og sé öruggur.

Eggert Þór minnir jafnframt á að Adams í Bretlandi sé í greiðslustöðvun og enn sé unnið að endurskipulagningu félagsins.

Eins og fram hefur komið tók endurskoðunarfyrirtækið PricewaterhouseCoopers yfir rekstur Adams Kids í Bretlandi um jólin vegna rekstrarerfiðleika þess. Í gær var tilkynnt að keðjan myndi loka 111 verslunum af 270 og segja upp 850 manns.

Eggert Þór segir að Adams Kids í Smáralind hafi vaxið hratt síðustu fimm ár og reksturinn gangi vel. Aðspurður um söluna í jólavertíðinni segir hann að hún hafi verið talsvert umfram væntingar. Þannig hafi salan aukist um 11% milli ára í desember.

Þá segir Eggert Þór að útsölurnar hafi byrjað vel nú í byrjun árs og verslunin hafi slegið eigið sölumet.