*

þriðjudagur, 3. ágúst 2021
Innlent 30. nóvember 2013 18:18

Segir skuldaniðurfellingar fjármagnaðar úr ríkissjóði

Guðmundur Steingrímsson segir spurning hvort rétt sé að láta fjársveltan ríkissjóð fjármagna skuldaniðurfellingar.

Ritstjórn
Edwin Roald Rögnvaldsson

„Ég vil auðvitað taka mér góðan tíma, og við í Bjartri framtíð, til þess að skoða þessar tillögur. En tvennt finnst mér blasa við: Mér sýnist eiga að fjármagna þessar aðgerðir í gegnum ríkissjóð. Það er þvert á það sem talað var um,“ segir Guðmundur Steingrímsson, formaður Bjartrar framtíðar. 

Hann segir að ríkissjóður eigi að afla teknanna og deila þeim út með þessu móti. Þá vakni auðvitað ótal spurningar. „Ríkissjóður er fjársveltur, skuldsettur upp í rjáfur, heilbrigðiskerfið er á heljarþröm, skólakerfið fjársvelt, lítið er um opinberar fjárfestingar í atvinnulífi, og þá er eðlilegt að spurt sé: Hvernig verður nýjum tekjum best varið, í þágu almennings og komandi kynslóða? Verður þeim best varið svona? Munu þessar aðgerðir skapa stöðugleika til langs tíma, lægri vexti, lægra verðlag? Fjölbreyttara atvinnulíf? Betri lífskjör?“ spyr Guðmundur. 

Hann segir eðlilegt að ræða þetta allt saman núna og lykilatriðið sé þetta: Það á að nota tekjur hins opinbera í þessar aðgerðir. „Það eru stóru tíðindin,“ segir Guðmundur Steingrimsson.