Sigmundur Davíð Gunnlaugsson hafnaði því ítrekað í fyrirspurnartíma á Alþingi að hann hefði átt eignir í skattaskjóli. Alltaf hafi verið greiddir skattar af umræddum eignum. Hann hafnar því að hann eða konan hans hafi tekið sérstaka ákvörðun um að staðsetja félagið Wintris á Tortóla og segir mikilvægt að uppræta ólögleg skattaskjól.

Leiðtogar stjórnarandstöðunnar spyrja Sigmund nú út í Wintris-málið í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi. Árni Páll Árnason spurði Sigmund hvort hann ætlaði að biðja þjóðina afsökunar að hafa sett þjóðina í þá stöðu sem hún er í nú. Sigmundur sagði að þegar heiður þjóðarinnar er í húfi beri fólki að gæta að framgöngu sinni og hafnaði því síðan að hann eða eiginkona hans hafi átt eignir í skattaskjóli.

Sigmundur sagði að Ísland sé í hópi þeirra ríkja sem nú er verið sérstaklega að skoða í samhengi við málefni skattaskjóla vegna þess að hér á landi hafi verið óeðlilega stórt banka- og fjármálakerfi á árunum fyrir hrun, sem að miklu leyti lagði upp fyrir viðskiptavini sína slíkt fyrirkomulag.

Veltu fyrir sér að skrá meira

Katrín Jakobsdóttir spurði Sigmund hvers vegna hann hafi ekki sagt satt í því viðtali sem birt var í Kastljósi í gær, en þar sagði Sigmundur að Wintris hafi tengst fyrirtæki sem hann gengdi stjórnarmennsku í. Sigmundur sagðist ekki ætla að halda því fram að frammistaða hans í viðtalinu hafi verið til eftirbreytni. Hann hafi verið undrandi á því hvað væri verið að tala um, og nefnt ýmislegt í óðagoti.

Óttar Proppé spurði Sigmund út í hagsmunaskráningu hans og sagði Sigmundur meðal annars að ekki hafi verið gert ráð fyrir því að skráðar séu eignar á borð við skuldabréf. Vel megi vera að hjónin hafi velt því fyrir sér að skrá meira, en aðalatriðið sé að reglunum hafi verið fylgt.