Seðlabankafrumvarpið svokallaða var afgreitt úr viðskiptanefnd Alþingis nú undir kvöldmat og verður tekið til þriðju umræðu í þinginu á morgun.

Fulltrúar Samfylkingarinnar, VG og Framsóknarflokksins lögðu fram eina breytingatillögu í nefndinni og var hún samþykkt með meirihluta þeirra.

Breytingatillagan er svohljóðandi:

„Ef peningastefnunefnd metur það svo að alvarleg hættumerki séu til staðar sem ógni fjármálakerfinu skal hún opinberlega gefa út viðvaranir þegar tilefni eru til.“

Fundurinn stóð í um eina klukkustund en fulltrúar Sjálfstæðisflokksins mótmæltu tillögunni, sögðu hana marklausa og illa ígrundaða.

Þá fóru þeir fram á að málinu yrði frestað í það minnsta til morguns til að hægt væri að fá álit sérfræðinga á tillögunni en því var hafnað af meirihlutanum.

Höskuldur Þórhallsson, þingmaður Framsóknarflokksins sem á mánudag myndaði meirihluta með sjálfstæðismönnum í til að skoða málið betur, kaus nú með Samfylkingunni og Vinstri grænum.

Segir vinnubrögðin lýsa vanvirðingu gagnvart vandaðri málsmeðferð á Alþingi

Birgir Ármannsson, þingmaður Sjálfsæðisflokksins segir vinnubrögð viðskiptanefndar við afgreiðslu frumvarpsins lýsa fullkominni vanvirðingu gagnvart löggjöf um Seðlabanka og gagnvart vandaðri málsferð á Alþingi.

„Hér er um að ræða verulega efnislega breytingu á hlutverki peningastefnunefndar hún á nú ekki aðeins að móta peningastefnuna heldur líka að fylgjast með stöðugleika fjármálakerfisins,“ segir Birgir í samtali við Viðskiptablaðið.

„Að mati okkar sjálfstæðismanna er þessi breytingatillaga fullkomið klúður og lýsir taugaveiklun ríkisstjórnarinnar í þessu máli. Það á að keyra þetta mál í gegn án þess að nokkuð sé hugað að afleiðingunum eða áhrifum á bankann.“

Þá gagnrýnir Birgir að breytingartillagan hafi verið lög fram í nefndinni í kvöld án þess að vera borin undir sérfræðing sem vitneskju hefði um málið.

„Öllum óskum okkar sjálfstæðismanna um að fá álit á tillögunni var hafnað,“ segir Birgir.

„Því var meira að segja að segja hafnað að fresta málinu þangað til snemma í fyrramálið en þá hefði kannski gefist kostur á því að fá þó ekki væri nema einn eða tvo sérfróða menn til að láta í ljós álit sitt. Svona vinnubrögð við lagasetningu eru alveg forkastanleg. Því má svo bæta við að öllum óskum okkar um að fá tækifæri til að ræða skýrslu ESB, sem gefin var út í dag, var hafnað. Þetta mál byrjaði með hroðvirkni og óvönduðum vinnubrögðum af hálfu forsætisráðherra og ríkisstjórnarinnar og nú á greinilega að klára málið í sama óðagoti án þess að gætt sé nokkurrar virðingar fyrir vandaðri lagasetningu.“