Samkvæmt samanteknum ársreikningi Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2014 varð rekstrarniðurstaða bæjarins jákvæð um 434 m.kr. en áætlun gerði ráð fyrir rekstrarafgangi upp á 12 m.kr. Ástæðan fyrir betri afkomu en vænst var eru hærri tekjur en áætlun gerði ráð fyrir. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bænum.

Heildarskuldir og skuldbindingar í árslok námu alls 1.539 m.kr. og lækkuðu um 161 m.kr. á árinu. Hreint veltufé í árslok nam 958 m.kr. og hækkaði um 365 m.kr. frá fyrra ári. Veltufjárhlutfall var 4,2 í árslok 2014 (2013: 1,8). Skuldahlutfallið lækkaði milli ára úr 55% í 45%.

„Ég er afar ánægð að geta lagt fram ársreikning fyrir árið 2014 með svo góðri rekstrarniðurstöðu og sterka fjárhagsstöðu. Þennan árangur vil ég ekki síst þakka frábæru starfsfólki bæjarins og miklum aga í rekstri,“ segir Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri Seltjarnarness.