Samkeppniseftirlitið sektaði Mjólkursamsöluna (MS) um 370 milljónir króna fyrir brot gegn samkeppnislögum síðasta mánudag, líkt og fram hefur komið . Tildrög rannsóknarinnar voru að Mjólkurbúið Kú ehf. (Mjólkurbúið) kvartaði yfir því að þurfa að greiða MS 17% hærra verð fyrir óunna mjólk til vinnslu, sk. hrámjólk, en keppinautar Mjólkurbúsins sem eru tengdir MS þyrftu að greiða.

Í aðdraganda rannsóknar Samkeppniseftirlitsins sendi Ólafur M. Magnússon, stjórnarformaður Mjólkurbúsins, stjórnarmönnum og forstjóra MS bréf þar sem hann hvatti stjórnarmenn til að beita sér fyrir því að fyrirtækið léti þegar í stað af háttsemi sinni.

„Við minnum á ábyrgð þína sem stjórnarmanns og bendum á að Samkeppniseftirlitið getur lagt stjórnvaldssektir á fyrirtæki skv. 37. gr. samkeppnislaga og fyrirtæki geta einnig skapað sér skaðabótaábyrgð gagnvart þeim aðilum sem brotin beinast að. Vakin skal athygli á því að þú sem stjórnarmaður getur með aðgerðum þínum, þátttöku og/eða tómlæti, bakað þér ábyrgð á því sem fram fer í rekstri fyrirtækisins,“ segir meðal annars í bréfinu.

Hvatti hann stjórnarmennina jafnframt til þess að vinna að því að upplýsa málið með Samkeppniseftirlitinu og stöðva háttsemina þegar í stað.