Halldór Halldórsson, bæjarstjóri Ísafjarðar, segir Ísafjarðarbæ geta nýtt sér niðursveiflu í efnahagslífinu til góðs.

Samkvæmt nýlegri spá Vinnumálastofnunar um horfur á atvinnumarkaði segir að atvinnuleysi muni aukast mikið í haust og fram á næsta ár. Gert er ráð fyrir því að atvinnuleysi verði mun meira á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni.

„Tækifæri fyrirtækja eru auðvitað fólgin í því að eiga möguleika á því að fá starfsfólk til vinnu. Það er á hreinu að okkur hefur vantað fólk til að koma vestur í vinnu enda atvinnuleysi lægst á landinu hér á Vestfjörðum,“ segir Halldór í viðtali við Bæjarins Besta á Ísafirði.

„Ég hef alltaf trúað því að við munum fyrr eða síðar ná vopnum aftur og þótt kreppuástand sé kannski tímabundið ástand, þá er ákveðið sóknarfæri á meðan á því stendur. Hvernig málin muni þróast ræðst einnig mikið af sjávarútveginum enda mikilvæg atvinnugrein. Hér er ódýrara og betra að búa og það eru ákveðin tækifæri sem felast í kreppuástandi fyrir Ísafjörð, það er ekki spurning,“ segir Halldór einnig.

Þetta kemur fram á vef Bæjarins Besta.