Serious Fraud Office (SFO), sem rannsakar meiriháttar efnhagsbort í Bretlandi, hefur tilkynnt að stofnunin hafi formlega hafið rannsókn á aðgerðum Kaupþings banka í Bretlandi fyrir fall hans í október 2008. Þetta kemur fram í tilkynningu frá stofnuninni á heimasíðu hennar.

SFO rannsakar meðal annars hvort að miklir fjármunir hafi verið teknir út úr banka Kaupþings í Bretlandi síðustu daganna fyrir fall hans. Auk þess ætlar stofnunin að rannsaka sérstaklega tilburði Kaupþings til að fá fjárfesta í Bretlandi til að leggja fé sitt inn á hávaxta-netreikninga bankans, Kaupþing Edge. SFO telur að yfir 30 þúsund lögaðilar í Bretlandi hafi lagt fé sitt inn á Kaupþing Edge reikninganna.

Í tilkynningunni kemur fram að SFO vinni náið með embætti sérstaks saksóknara á Íslandi til að tryggja að kröftugar rannsóknir fari fram á starfsemi Kaupþings jafnt á Íslandi sem og í Bretlandi.