Ef ekki hefðu komið til aukagreiðslur ríkissjóðs og svokölluð uppgjör á skuldbindingum hefði B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins tæmst við bankahrunið á fjórða ársfjórðungi 2008 og allar greiðslur til lífeyrisþega frá ársbyrjun 2009 hefðu þurft að koma beint frá ríkissjóði. Vigfús Ásgeirsson tryggingastærðfræðingur sagði á aðalfundi LSR sl. þriðjudag að B-deild hefði aldrei verið hugsuð sem sjóðsöfnunarsjóður og því ætti ekki að koma á óvart þótt tryggingafræðileg heildarstaða hennar væri neikvæð um 63% í lok síðasta árs.

A-deildin er hins vegar hugsuð sem slík sjóðsöfnunardeild og lýtur hún sömu reglum um tryggingafræðilega stöðu og almennu sjóðirnir. Staða A-deildarinnar hefur verið neikvæð um meira en 10% undanfarin fjögur ár og í árslok 2011 var hún neikvæð um ein 13,1%. Samkvæmt lögum má hún ekki vera verri en 10% fimm ár í röð og sagði Haukur Hafsteinsson, framkvæmdastjóri LSR, að „nánast útilokað“ væri að hífa tryggingafræðilegan halla upp fyrir þetta mark á þessu ári.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf útgáfu af blaðinu undir liðnum Tölublöð hér að ofan.