Sigurður Hilmarsson, oftast þekkur sem Siggi Skyr, var valinn hagfræðingur ársins 2018 af Félagi viðskipta- og hagfræðinga (FVH). Forseti Íslands og verndari verðlaunanna, Guðni Th. Jóhannesson, afhenti verðlaunin við hátíðlega athöfn á Íslenska þekkingardeginum í dag í Iðnó.

Þá hlaut Vísir hf. Íslensku þekkingarverðlaunin í ár en Vísir hf. ásamt Arion banka, HB granda og Skagans 3x voru tilnefnd til þekkingarverðlauna Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Þetta er í 18. sinn sem félagið stendur fyrir Íslenska þekkingardeginum.

Í rökstuðningi dómnefndar fyrir vali á hagfræðingi ársins segir meðal annars: „Í ár hlýtur Sigurður Kjartan Hilmarsson, stofnandi Siggi's skyr viðurkenninguna hagfræðingur ársins sem félag viðskipta- og hagfræðinga veitir. Sú ákvörðun er byggð á framúrskarandi og mögnuðum árangri hans. Sigurður hefur byggt upp alþjóðlegt vörumerki sem byggir á íslenskri matarhefð, með bætta lýðheilsu að leiðarljósi.“

Sigurður flutti til Bandaríkjanna árið 2005 til að læra MBA við Columbia-háskóla í New York. Honum fannst jógúrtið þar í landi of sætt, svo hann byrjaði að búa til sína eigin útgáfu í íbúð sinni. Hann byggði hana á íslenskri skyr-hefð og notaði bæði minni sykur og einföld hráefni. Ári síðar seldi hann fyrsta skyrið á útimarkaði á Manhattan.

Nú í dag, eftir þrettán ára uppbyggingarstarf, er hægt að kaupa Siggi’s skyr í 25 þúsund verslunum í Bandaríkjunum, þar á meðal í verslunarkeðjum eins og Whole Foods, Target, Costco, Wegmans og Kroger. Árið 2016 hóf Starbucks einnig sölu á Siggi’s skyr á 7 þúsund kaffihúsum um allan heim.

Markmið Sigurðar um að draga úr sykurneyslu og stuðla að heilbrigðu mataræði hefur vakið mikla athygli í Bandaríkjunum. Hann hefur mætt í sjónvarpsviðtöl hjá ABC, CNN, Bloomberg og CBS. Hann var á lista Food and Wine Magazine yfir “fjörutíu undir fjörutíu” og á lista Goldman Sachs yfir áhugaverðustu frumkvöðlana.

Um síðustu áramót seldi Sigurður fyrirtækið sitt, sem heitir The Icelandic Milk and Skyr Corporation, til franska mjólkurrisans Lactalis. Hann stýrir fyrirtækinu þó áfram frá New York, þar sem hann býr ennþá í dag.

Við val á viðskipta- eða hagfræðingi og Þekkingarfyrirtæki ársins er leitað eftir áliti félagsmanna FVH en endanleg ákvörðun er í höndum dómnefndar. Í dómnefnd sat stjórn FVH sem í eru: Ásdís Kristjánsdóttir,  Björn Brynjúlfur Björnsson, Dögg Hjaltalín, .Helgi Rafn Helgason, Íris Hrannarssdóttir, , Magnús Þorlákur Lúðvíksson, Sverrir Sigursveinsson, Vala Hrönn Guðmundsdóttir, Þórarinn Hjálmarsson og framkvæmdastjóri félagsins, Katrín Amni Friðriksdóttir

© Haraldur Guðjónsson (VB MYND/hag)