Grímur Sigurðsson, skiptastjóri þrotabús SPlasts, áður plastvöruframleiðandans Sigurplasts í Mosfellsbæ, hefur í nægu að snúast þriðjudag í næstu viku en þá verður á dagskrá í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrirtaka í átta málum sem tengjast rifun á viðskiptum tengdum Sigurplasti áður en fyrirtækið varð gjaldþrota.

Fyrirtaka í málunum öllum fær klukkustund á dagskrá Héraðsdóms Reykjavíkur. Skiptastjórinn þarf þó ekki að fara langt á milli mála en þau verða öll í sal 402. Þeir Sigurður L. Sævarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sigurplasts og annar tveggja eiganda fyrirtækisins, og Jón Snorri Snorrason, fyrrverandi stjórnarformaður Sigurplasts sem átti fyrirtækið á móti honum, sitja í fimm málum ýmist saman eða í sitt hvoru lagi. Önnur fyrirtæki sem koma við sögu í fyrirtökunum eru Viðarsúlur, K.B. Umbúðir, Valfoss og Lagarök. Nokkrum öðrum einstaklingum var sömuleiðis stefnt í málinu. Athygli vekur að skiptastjóri þrotabúsins stefndi jafnframt íslenska ríkinu. Fyrirtakan í máli gegn ríkinu tekur lengstan tíma. Alla jafna eru fimm mínútur gefnar til fyrirtöku. Málið gegn íslenska ríkinu fær hins vegar 25 mínútur.

Sigurplast var stofnað árið 1960 og framleiðir ílát og flöskur úr plasti og sinnir álíka þjónustu. Þetta var sjálfstætt fyrirtæki uns það sameinaðist Plastprenti árið 2003. Í mars fjórum árum síðar var það selt nýjum eigendum. Fyrirtækið fór í þrot haustið 2010 og seldi skipaður skiptastjóri eignir og nafn fyrirtækisins til Eignabjargs, dótturfélags Arion banka. Rétt rúmur mánuður er síðan Eignabjarg seldi Sigurplast til nýrra eigenda.