Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segir að tvö bréf þáverandi viðskiptaráðherra, Björgvins G. Sigurðssonar, til breska fjármálaráðuneytisins haustið 2008 sýni fram á hringlandahátt íslenskra stjórnvalda og óskýr skilaboð þeirra til breskra stjórnvalda.

Bréf viðskiptaráðuneytisins til breska fjármálaráðuneytisins dagsett 20. ágúst og 5. október voru birt í svari ráðherrans við fyrispurn Sivjar á Alþingi í dag.

Í fyrra bréfinu segir meðal annars að vilji svo ólíklega til að stjórn innstæðutryggingasjóðs geti ekki aflað nægilegra fjármuna á fjármagnsmörkuðum, muni íslensk stjórnvöld gera allt sem ábyrg stjórnvöld myndu gera við slíkar aðstæður, þar með að aðstoða sjóðinn við að afla nægilegs fjármagns svo að hann geti greitt lágmarkstryggingu.

Þá segir í bréfinu að komi upp sú staða að fjármálastofnun, með heilbrigt eiginfjárhlutfall, lendi í greiðsluvanda vegna þess að innstæðueigendur taki skyndilega út stórar fjárhæðir í stórum stíl muni Seðlabanki Íslands, sem lánveitandi til þrautavara, útvega fjármagn. Íslensk stjórnvöld myndu styðja bankann í því. Við slíkar aðstæður myndi því aldrei reyna á innstæðutryggingasjóð.

Í síðara bréfinu segir m.a. að íslensk stjórnvöld muni aðstoða innstæðutryggingasjóð við að afla nægilegs fjármagns svo sjóðurinn geti greitt lágmarks innstæðutryggingar komi til þess að Landsbankinn falli og útibú hans í Bretlandi.

Undrast seinagang

Siv bendir á að hún hafi óskað eftir bréfunum í fyrirspurn sem hún lagði fram á Alþingi hinn 10. desember. Svarið hafi hins vegar ekki borist Alþingi fyrr en í dag. „Þetta er óeðlilegur dráttur á svari sem þurfti ekki að vinna því bréfin voru til staðar," segir Siv sem undrast seinaganginn.

Ekki náðist í Björgvin G. Sigurðsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra, við vinnslu þessarar fréttar.