Evrópusambandið getur lært af stjórn fiskveiða á Íslandi, segir í umfjöllun The Economist um sjávarútveg hér á landi, en umfjöllunin er hluti af stórri úttekt á málefnum sjávarins í heiminum.

Mikilvægir þættir íslenska kerfisins felast í að tryggja þeim sem veiða réttindi sem gefur þeim hæfilegar væntingar um hagkvæmar fiskveiðar til langs tíma með því að hvetja til varðveislu stofnsins. Kerfið er skýrt, opið og tiltölulega einfalt og eftirlit er gott. Þess vegna nýtur það virðingar þeirra sem veiða. Þá er það í meginatriðum byggt á mati vísindamanna á stofninum, en ekki útreikningum stjórnmálamanna á árangri í kosningum, segir í The Economist.

88% ofveiði í ESB

Þessu er öfugt farið í Evrópusambandinu þar sem árum saman hefur verið reynt bæði að draga úr veiðum og auka þær, jafnvel þó að stofnar hafi minnkað. Ofveiði hefur aukist og afkastageta flotans var fyrir nokkrum árum komin í það að vera tvöfalt meiri en þörf var á miðað við sjálfbærar veiðar. Framkvæmdastjórn ESB viðurkennir nú að 88% af stofnum sambandsins séu ofveiddir, að sögn The Economist. Algengt er að heimildir til veiða fari 50% fram úr ráðleggingum vísindamanna, auk þess sem veitt sé umfram heimildir.

Í umfjölluninni segir ennfremur að sjávarútvegsstefna ESB hafi löngum verið alræmd og hún sé helsta ástæða þess að fiskveiðiþjóðirnar Ísland og Noregur hafi ekki gengið í sambandið.

Stefna Íslands gæti leyst vanda ESB

Fram kemur að ESB gæti vissulega lært af Íslandi. Lausnin fyrir Evrópu og aðra felst í stefnu Íslands: Seljanlegir kvótar með heildaraflamarki, strangt eftirlit og opinberar upplýsingar um afla og þess háttar, auk þungrar refsingar við brotum. Einnig sé nauðsynlegt að hafa góða vísindaráðgjöf og virða  hana, þó að vísindamenn hafi ekki einkarétt á þekkingu á sjónum.

Þeir sem veiði fiskinn hafi líka mikilvæga þekkingu en til að þeir hagi sér skynsamlega sé eignarréttur á kvótunum nauðsynlegur.