Hátekju- og eignaskattur verður afnuminn í Svíþjóð samkvæmt nýju fjárlagafrumvarpi sem ríkisstjórn mið- og hægrimanna undir forystu Fredrik Reinfeldt kynnti á mánudaginn. Einnig var þeim möguleika haldið opnum að skattar á einstaklinga og fyrirtæki verði lækkaðir síðar á kjörtímabilinu. Hagfræðingar fögnuðu þessum skattalækkunaráformum ríkisstjórnarinnar en vöruðu um leið við of mikilli ríkissútgjaldaukningu sem gæti leitt til ofhitnunar í hagkerfinu.

Í fjárlagafrumvarpinu er lögð mikil áhersla á aðgerðir til að auka atvinnuþáttöku. Anders Borg, fjármálaráðherra stjórnarinnar, sagði í ræðu sinni fyrir þingheim að samkvæmt spám ráðuneytisins myndi fólki í fullu starfi fjölga um 185 þúsund fyrir árið 2009. Eitt af helstu stefnumálum Reinfeldt fyrir kosningarnar þar í landi síðastliðið haust var að ráðast gegn hinu mikla atvinnuleysi sem einkennt hefur sænskt atvinnulíf í mörg ár, lækka skattbyrði á einstaklinga og fyrirtæki og minnka afskipti ríkisvaldsins af viðskiptalífinu.

Þrátt fyrir öflugan hagvöxt undanfarin ár þá stendur Svíþjóð frammi fyrir þeim vanda - líkt og mörg önnur ríki í Evrópu - að þjóðin er að eldast hratt, sem gæti haft mjög skaðleg áhrif fyrir vöxt og framgang atvinnulífsins í landinu ef ekki verður gripið til einhverra úrræða. Opinberar tölur segja að atvinnuleysi sé aðeins 4,3%, en margir draga þær tölur í efa þar sem útreikningarnir byggjast ekki á alþjóðlegri skilgreiningu á atvinnuleysi; ekki er talin með sá stóri hópur atvinnulausra sem tekur þátt í umfangsmiklum vinnumarkaðsgerðum á vegum ríkisins né heldur þeir sem skráðir eru frá vinnu í lengri tíma sökum veikinda. Af þessum ástæðum telja sérfræðingar að raunverulegt atvinnuleysi í Svíþjóð sé fremur í kringum 17%.

Klas Eklund, aðalhagfræðingur hjá sænska bankanum SEB, telur að fjárlagafrumvarpið varpi ljósi á að ekki er samstaða á meðal ríkisstjórnarinnar og stjórnenda seðlabankans um hversu háir stýrivextir bankans eigi eftir að verða á næstu árum. Með því að lækka skatta og auka samhliða því útgjöld ríkissins er ljóst að verðbólguþrýstingur mun gera vart við sig. Ríkisstjórnin býst þar af leiðandi við því að stýrivextir verði komnir upp í 4,75% árið 2009 á meðan núverandi spá seðlabankans gerir ráð fyrir 3,75% vöxtum í byrjun ársins 2010. Það er mat Eklunds að stjórnendur seðlabankans séu á góðri leið með að verða einangraðir í afstöðu sinni til þróunar sænsks efnahagslífs á næstu árum.