Sala á 30% hlut í Landsvirkjun gerir það að verkum að skattgreiðendur munu ekki bera ábyrgð á framtíðarskuldum fyrirtækisins auk þess sem skráning á markað gæti skilað 5-földum ávinningi. Skuldir Landsvirkjunar, sem eru að mestu í erlendir mynt, nema 340 milljörðum króna.

Hagfræðingurinn Ásgeir Jónsson, lektor í Háskóla Íslands og efnahagsráðgjafi GAMMA, skrifar grein um sölu á hlut í Landsvirkjun í Morgunblaðinu í dag. Hann var jafnframt einn af höfundum skýrslu um Landsvirkjun árið 2011 en þar voru settar fram hugmyndir um að landsmenn fari að dæmi Norðmanna þegar ríkið seldi 30% hlut í ríkisolíufélaginu Statoil en hélt eftir 70%.

Ásgeir bendir m.a. á að skráning á hlut í Landsvirkjun á hlutabréfamarkað getið opnað möguleika fyrir Landsvirkjun að afla sér fjár með hlutafjárútboði sem nýta má í fjárfestingar og/eða hækkað eiginfjárhlutfall sitt  sem nú sé of lágt. Á sama getur ríkið, að mati Ásgeirs, nýtt fjármunina til að greiða niður skuldir hins opinbera.

Ásgeir bendir jafnframt á að skráning Landsvirkjunar gæti þannig stuðlað að hærra lánshæfi ríkisins auk þess minnkað áhættu þjóðarinnar af orkusölu.

„Íslenska ríkið hefur einnig aðrar ábyrgðir til þess að hafa áhyggjur af. Hér má telja 950 milljarða ábyrgð vegna skulda Íbúðalánasjóðs og tæplega 400 milljarða ábyrgð á lífeyrisskuldbindingum opinberra starfsmanna. Það ætti því að vera höfuðverkefni íslenskra stjórnmála að losa þjóðina undan ábyrgð af skuldbindingum sem samanlagðar eru virði einnar landsframleiðslu.“