Skatturinn hefur farið fram á nauðungarsölu á sumarbústaði Gylfa Þórs Sigurðssonar knattspyrnumanns í Grímsnes- og Grafningshreppi. Vísir greindi fyrst frá.

Skatturinn fór í febrúar fram á fjárnám í eign Gylfa Þórs Sigurðsson vegna 7,8 milljóna skattaskuldar. Höfuðstóll skuldarinnar er rúmlega 6,8 miljónir króna en dráttarvextir af skuldinni eru um 940 þúsund krónur. Fjárnám er oft undanfari nauðungarsölubeiðnar.

Uppboðið mun fara fram 31. mars næstkomandi í húsakynnum Sýslumannsins á Suðurlandi á Selfossi. Bústaðurinn er rúmir 150 fermetrar og hefur verið í eigu Gylfa frá árinu 2010. Fasteignamat eignarinnar er 51 milljón en brunabótamat 71 milljón króna.

Gylfi Þór hefur sætt farbanni á Bretlandi frá því í júli á síðasta ári vegna rannsóknar breskra yfirvalda á meintu kynferðisbroti hans gegn ungmenni. Þá hefur hann ekki verið hluti af leikmannahópi Everton á tímabilinu vegna málsins en samningur hans rennur út í sumar.