Úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála um að ógilda ákvörðun Samkeppniseftirlitsins um samruna Senu og Dagsbrúnar, sem greint var frá fyrr í dag, byggist fyrst og fremst á því að andmælaréttur hafði ekki verið virtur í málinu.

Virðist Samkeppniseftirlitið ekki hafa áttað sig á því að tveir aðilar tengdust sölunni og urðu veikindi lögmanns annars þeirra, Disksins ehf., til þess að sjónarmið félagsins bárust ekki til Samkeppniseftirlitsins og andmælaréttur því brotinn á félaginu. Samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins er ólíklegt að Samkeppniseftirlitið geti haft frekari áhrif á samrunann sem það augljóslega telur vera samkeppnishindrandi. Lögmaður sem Viðskiptablaðið hafði samband við taldi helst að unnt yrði að taka eitt og eitt mál fyrir í einu.

Kæra Disksins ehf. er á því byggð að fyrirtækið hafi verið móðurfélag Senu ehf. þegar Sena ehf. var seld og Diskurinn ehf. því verið seljandi. Fyrirtækið hafi því haft aðilastöðu í umræddu máli. Telur fyrirtækið að Samkeppniseftirlitið hafi brotið á sér ýmsar málsmeðferðarreglur við meðferð máls þessa. Er kæra Disksins ehf. eingöngu á því byggð og hefur félagið gert þá kröfu af þessu tilefni að ákvörðun Samkeppniseftirlitsins
nr. 22/2006 verði ógilt.

Áfrýjunarnefndin taldi rétt að taka umræddar málsástæður Disksins ehf. um formsatriði málsins til skoðunar sérstaklega þar sem þær gætu, ef réttar reyndust, einar sér leitt til ógildingar ákvörðunarinnar. Samkeppniseftirlitinu var því gefinn kostur á tjá sig skriflega um fyrrgreindar málsástæður og kröfugerð og barst greinargerð eftirlitsins nefndinni hinn 23. ágúst 2006. Er í úrskurði þessum einungis tekin afstaða til umræddra málsástæðna og kröfu Disksins ehf., en ekki er fjallað um málsástæður og kröfur annarra sem kærðu ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 22/2006.

Samkeppniseftirlitinu barst, með bréfi dags. 28. febrúar 2006, tilkynning Einars Þórs Sverrissonar hdl., þar sem tilkynnt var um kaup Dagsbrúnar hf. á Senu ehf. af áfrýjanda, sbr. 3. mgr. 17. gr. samkeppnislaga. Bréfinu fylgdi samrunaskýrsla, sbr. reglur nr. 881/2005 um tilkynningu samruna. Í skýrslunni kom fram að tengiliðir vegna samrunans væru annars vegar Einar Þór Sverrisson hdl. og hins vegar Jón Sveinsson hrl.
Samkeppniseftirlitið skrifaði samrunaaðilum bréf, dags. 8. mars 2006, þar sem óskað var frekari upplýsinga og gagna.

Á móttökueyðublaði Samkeppniseftirlitsins vegna afhendingar nefnds bréfs til Jóns Sveinssonar hrl. var vakin athygli eftirlitsins á veikindum Jóns, en þar stendur: ?Ath. Jón Sveinsson er í veikindaleyfi og ekki
væntanlegur næstu vikur eða jafnvel mánuði.?
Gagnaöflunarbréfi Samkeppniseftirlitsins var ekki svarað af hálfu Jóns. Það taldi áfrýjunarnefndin að hefði ekki tryggt andmælarétt Disksins ehf.