Samkvæmt nýrri spá um þróun ávöxtunarkröfu íbúðabréfa gerir Greiningardeild Glitnis ráð fyrir að krafan muni hækka aftur á 1. fjórðungi þessa árs eftir mikla lækkun undir lok síðasta árs og í byrjun þessa árs. Næsti vaxtaákvörðunardagur Seðlabankans er 14. febrúar og gerir Greiningadeildin ráð fyrir óbreyttum vöxtum en hörðum tóni.

Kröfulækkun undanfarinna vikna má að öllum líkindum rekja til væntinga um að vextir verði lækkaði fyrr en áður var reiknað með. Spá Glitnis um hækkun kröfunnar byggir hins vegar á að slíkar væntingar hafi verið ótímabærar. Í þessu samhengi telur Greiningardeildin  ólíklegt að ávöxtunarkrafan fari í svipaðar hæðir og hún var í þegar hún var hvað hæst undir lok síðasta árs. Það kemur bæði til af því að styttra er í vaxtalækkun en þá og að meiri eftirspurn verði eftir bréfunum á næstu vikum og mánuðum en var undir lok síðasta árs.

Forsenda um þróun stýrivaxta sem spáin byggir á er að vextir verði fyrst lækkaðir í maí. Í því ljósi er reiknað með að ávöxtunarkrafa taki að lækka á ný á 2. fjórðungi ársins og verði á svipuðu róli og hún er nú í lok júní. Það felur í sér að krafan á HFF14 verði nálægt 6,3% og 4,6% á HFF44.   Á seinni helmingi þessa árs telur Greiningardeildin að ávöxtunarkrafa íbúðabréfa muni lækka samhliða lækkunarferli stýrivaxta. Hraði lækkunar kröfunnar mun að öllum líkindum fara mest eftir væntingum um hraða lækkunar stýrivaxta. Í spánni er reiknað með að væntingar verði í varfærnari kantinum. Í lok ársins er reiknað með að krafa HFF14 verði nálægt 6% og að krafa HFF44 verði nálægt 4,4%