Við fyrstu sýn mætti ætla að ummæli forstjóra Samkeppniseftirlitsins (SE) í liðinni viku um Íslandspóst ohf. (ÍSP) rími illa við upplýsingar sem áður hafa komið fram. Forstjórinn segir að svo sé ekki. Yfirlýsing forstjóra fyrirtæksins bendir til þess að gjaldskrár úr tíð fyrri stjórnenda hafi ekki verið í samræmi við leikreglur.

Í síðasta tölublaði Viðskiptablaðsins var fjallað um þá ákvörðun ÍSP að hætta dreifingu fjölpósts á höfuðborgarsvæðinu og í nærsveitum sem og að sameina gjaldskrárflokkinn blöð og tímarit við flokkinn bréf 51-2000 gr. Í sátt sem ÍSP gerði við Samkeppniseftirlitið árið 2017 kom fram að fyrirtækið hefði tilkynnt eftirlitinu árið 2014 að sú breyting hefði þegar verið framkvæmd en sú reyndist ekki raunin.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri SE, sagði af þessu tilefni að ekki væri hægt að „draga sjálfkrafa þá ályktun að farið hafi verið á svig við skilyrði sáttarinnar“ með þessu og að engar kvartanir hafi borist vegna þessa. Viðskiptablaðið hefur á móti upplýsingar um að Póstmarkaðurinn hafi beint erindi til SE vegna fyrirkomulags gjaldskrárinnar. Í skriflegu svari Páls Gunnars við fyrirspurn blaðsins vegna þessa staðfestir hann að ábending hafi borist en það hafi ekki uppfyllt skilyrði samkvæmt málsmeðferðarreglum SE til að teljast kvörtun eða erindi þar sem rökstuðning fyrir meintu broti hafi skort.

Eftir að breytingin var kunngjörð sendi Birgir Jónsson, sem fékk það verkefni sem nýráðinn forstjóri ÍSP að taka til eftir fyrri stjórnendur, frá sér tilkynningu vegna þeirrar umræðu sem skapast hafði um hana. Þar sagði meðal annars að „Pósturinn [hefði] um árabil haft sérstaka verðskrá sem gildir um dreifingu á blöðum og tímaritum. Þessi verðskrá gefur útgefendum mun lægri verð á dreifingu en hægt er að réttlæta miðað við þann kostnað sem fellur til við dreifinguna. […] Pósturinn er einnig undir smásjá eftirlitsstofnana og er, eins og öðrum fyrirtækjum í sömu stöðu, óheimilt að stunda hvers kyns niðurgreiðslur eða að selja þjónustu undir kostnaðarverði. Kostirnir sem Pósturinn hefur í þessu máli eru annaðhvort að hækka verðskrána eða hætta á að fá á sig ákærur fyrir brot á samkeppnislögum.“

Samkvæmt lögum um póstþjónustu, bæði eldri lögum sem og nýjum bálki sem tók gildi um áramótin, ber gjaldskrá alþjónustu að „taka mið af raunkostnaði við að veita þjónustuna að viðbættum hæfilegum hagnaði“.

N ánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .