Kínverskir fjárfestar hafa sýnt því áhuga að kaupa hlut í Íslandsbanka af slitabúi Glitnis. Í hópi þeirra sem hafa áhuga á að kaupa hlutinn er kínverski bankinn ICBC, sem er stærsti banki heims, að því er fram kemur í Viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag.

Slitabú Glitnis heldur á 95% hlut í Íslandsbanka í gegnum dótturfélagið ISB Holding. Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hafa fulltrúar Glitnis átt í viðræðum við fjárfestingahóp sem samanstendur af ICBC, China Life Insurance og einum stærsta framtakssjóði landsins.

Steinunn Guðbjartsdóttir segir í samtali við Morgunblaðið að um sé að ræða fjárfesta sem séu hæfir eigendur að rekstri banka. Hún vill að öðru leyti ekki tjá sig um samsetningu fjárfestingahópsins.