*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Innlent 15. maí 2019 15:24

Stal humri og ávanabindandi lyfjum

Karlmaður var dæmur í fimm mánaða fangelsi fyrir að stela 434 kg. af humri og lyfjum að verðmæti 317 þúsund.

Ritstjórn
Mennirnir klipptu á keðju sem lokaði gámnum og voru mjög röskir að rífa kassana út.

Karlmaður á þrítugsaldri var í Héraðsdómi Reykjaness fyrir viku dæmdur í fimm mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnaðar- og fíkniefnalagabrot. Maðurinn braust meðal annars, í félagi við annan mann, inn í frystigám Humarsölunnar ehf. og hafði þaðan á brott 434 kg. af humri.

Nokkuð var fjallað um þjófnaðinn á humrinum þegar sagt var frá málinu í fyrra. Mennirnir tveir tóku aðeins humar með sér en létu hnossgæti á borð við þorskhnakka, risarækju og hörpudisk vera. Verðmæti humarsins var áætlað 1,7 milljónir króna en 63 kg. af honum fundust við húsleit á heimili hans. 

„Ég skal gefa þeim það að þeir voru djöfull snöggir miðað við myndbandið. Það kom mér á óvart og það væri vel hægt að nota þá einhvers staðar ef þeir myndu nenna því,“ sagði Guðjón Sigurðsson, hjá Humarsölunni, í samtali við Fréttablaðið á þeim tíma. 

Hinn maðurinn hlaut þrjátíu daga fangelsi, skilorðsbundið til tveggja ára, fyrir sinn þátt í humarþjófnaðinum. Þyngri refsing hins mannsins helgast af því að hann var einnig sakfelldur fyrir að hafa brotist inn í Apótek Suðurnesja í október í fyrra og stolið þaðan lyfjum að verðmæti rúmlega 317 þúsund króna. Meðal þess sem hann hafði á brott voru kassar af alprazolam, concerta, rítalín, oxycontin og contalgin.

Þá var hann að auki sakfelldur fyrir vörslu á kannabis og þjófnað úr ÁTVR. Humarþjófnaðurinn átti sér stað í febrúar í fyrra en á vormánuðum síðasta árs hlaut hann annan dóm, meðal annars fyrir þjófnað. Við ákvörðun refsingar var litið til þess og að humarþjófnaðinn framdi hann í sameiningu við annan mann. Aftur á móti var það metið til mildunar að hann játaði brot sín skýlaust og hið sama gerði góð hegðun hans í fangelsi undanfarið en hann afplánar nú dóm sinn frá í fyrra. Mennirnir voru dæmdir til að greiða þóknun verjanda síns en ekki var höfð uppi einkaréttarkrafa, hvorki vegna humarsins né lyfjanna.