Starfsmenn Glitnis vissu að Fons var í miklum fjárhagsvandræðum og að lánasamningur upp á sex milljarða króna með veði í Aurum-bréfum félagsins væri settur á svið til að ná tveimur milljörðum króna út úr bankanum umfram vanskil Pálma Haraldssonar við bankann.

Þetta er meðal þess sem fram kemur í stefnu skilanefndar Glitnis gegn Jóni Ásgeiri, Pálma Haraldssyni, Lárusi Welding og þremur fyrrum starfsmönnum Glitnis þar sem þeir eru sameiginlega krafðir um greiðslu á sex milljörðum króna auk vaxta frá miðju ári 2008. Viðskiptablaðið mun fram eftir degi í dag birta valda kafla úr stefnunni.

Ný lánabeiðni lögð fram

Þann 9. Júlí lagði Guðný Sigurðardóttir fram nýja lánabeiðni um að Glitnir myndi lána FS38 ehf. þá sex milljarða króna sem helstu eigendur bankans vildu að félagið fengi lánað. Samkvæmt beiðninni átti að nota féð til að kaupa hluti Fons í Aurum. Hluti af kaupverðinu átti að renna í að greiða niður skuldir Fons hjá Glitni og til að bæta veðstöðu vegna framvirkra samninga sem félagið var með hjá Glitni. Þeir voru neikvæðir um þrjá milljarða króna.

Bersýnileg fyrirætlan að ná út tveimur milljörðum króna umfram vanskil Pálma

Í lánabeiðninni kemur því fram að eiginleg útgreiðsla á fé úr bankanum yrði tveir milljarðar króna. Í stefnunni segir að „hér var bersýnilega um eftirfarandi fyrirætlan að ræða; 1) að færa hluta af gjaldföllnum skuldum Fons hf. yfir á ógjaldfæra dótturfyrirtækið FS38 ehf. og 2) forða því að bankinn framkvæmdi veðkall og geni að Fons hf. og 3) að láta af hendi 2 milljarða króna í reiðufé sem stefndu Jón Ásgeir og Pálmi hugðust skipta jafnt á milli sín.“

Í stefnunni segir ennfremur að „bersýnilegt var að kaupverðið á milli Fons hf. og dótturfélagsins FS38 ehf. var sýndarverð, ákveðið með hliðsjóð af þeirri fyrirætlan að ná út 2 milljörðum króna í reiðufé umfram vanskil Fons hf[...]Verður ekki annað ályktað að lánastjórinn hafi bæði vísvitandi fært rangar upplýsingar í lánabeiðnina og jafnframt látið hjá líða að framkvæma mat til að ljá henni trúverðugra yfirbragð, í þeim tilgangi að skapa grundvöll fyrir stefndu Lárus, Rósant Má og Magnús Arnar til að samþykkja lánveitinguna til FS38 ehf.“

Lánveitingin samþykkt utan fundar áhættunefndar

Þennan sama dag, klukkan 8:30 að morgni, var haldinn fundur í áhættunefnd Glitnis. Samkvæmt fundargerð var bókað að tvö mál hafi verið samþykkt utan fundarins og var annað þeirra lánabeiðni FS38 upp á sex milljarða króna. Í stefnunni segir að í fundargerð sé „aðeins bókað að stefndu Lárus, Magnús og Rósant Már hafi samþykkt lánveitinguna utan fundarins. Athygli vekur að í samþykkt lánabeiðninnar er ekki getið um lánstíma eða önnur kjör.“

Frekar að lána Pálma beint til Cayman en að standa í þessari æfingu

Daginn eftir að Lárus, Magnús og Rósant samþykktu lánið, þann 10. júní, sendi Einar Örn Ólafsson, þáverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjaráðgjafar, eftirfarandi póst til Lárusar Welding:

„Verð að viðurkenna að ég skil ekki af hverju við lanum ekki bara palma 2.ma.kr. til að koma fyrir á cayman, aður en hann fer a hausinn, I stað thess að fara I alla thess goldsmith aefingu“.

Í stefnunni segir að ljóst sé af þessum ummælum Einars að honum hafi þótt „Lárus ganga helst til langt í þjónkun við stefndu Pálma og Jón Ásgeir. Verður af ummælum Einars Arnar ráðið m.a. að vitneskja hafi búið með stjórnendum bankans um að fjárhagsstaða stefnda Pálma og Fons hf. væri bágborin og hugsanlega nálægt gjaldþroti og að kaupsamningurinn um bréfin í Aurum milli Fons hf. og dótturfélagsins væri settur á svið til þess að koma reiðufé út úr bankanum til stefndu Pálma og Jóns Ásgeirs.“