„En þar sem stofnunin er stór og þjóðin er lítil er það markmið mitt að við náum sambærilegum árangri og afköstum og helst meiru með heldur færra fólki þegar fram líða stundir,“ segir Unnur Gunnarsdóttir, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, í vefriti stofnunarinnar. Unnur segir Fjármálaeftirlitið þó ekki of stórt í þeim skilningi að ærin verkefni séu fyrir hendi og enn þurfi að forgangsraða og velja úr verkefnum.

„Löggjöfin hefur verið styrkt að því leyti að Fjármálaeftirlitinu eru ætlaðar meiri valdheimildir en áður,“ segir Unnur og er ósammála því að of mikil harka sé sýnd af hálfu eftirlitsins. „Við verðum að beita valdheimildum af varúð og málefnalega. Það sem við höfum að leiðarljósi er að stuðla að því að það sé heilbrigt fjármálakerfi í landinu okkar.“