Eins og búast mátti við vill Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvegaráðherra og fráfarandi formaður Vinstri grænna (VG) ekki gefa það upp hvort komandi kjörtímabil verður hans síðasta kjörtímabil en þegar blaðamaður gerist ágengur um svar segist Steingrímur í það minnsta hafa hug á því að klára það kjörtímabil. Gangi það eftir mun hann hafa setið látlaust á þingi í 34 ár.

Þetta kemur fram í viðtali við Steingrím J. í Viðskiptablaðinu en sem kunnugt er lætur hann af embætti formanns VG í dag eftir að hafa verið formaður flokksins frá því að hann var stofnaður í febrúar 1999.

Í viðtalinu heldur blaðamaður því fram að stjórnmálamenn viti oft ekki hvað þeir eigi að gera eftir að stjórnmálaferlinum lýkur og eigi erfitt með að finna sér vinnu. Steingrímur er spurður að því hvort hann óttist þau örlög.

„Nei, þvert á móti,“ segir Steingrímur og hlær við.

„En það er rétt sem þú segir að þetta er oft vandamál hjá stjórnmálamönnum. Það er þó margt sem ég gæti hugsað mér að gera annað en að vinna hjá ríkinu og ég sækist ekki eftir opinberum sporslum. Mín besta slökun er að komast í púl og ég gæti vel hugsað mér að starfa við hvað sem er á meðan ég hef aldur og þrek til. Ég hef mikinn áhuga á ferðaþjónustu og gæti vel hugsað mér að starfa við hana. Svo er aldrei að vita nema maður rifji upp gleymda jarðfræði og komi henni í eitthvert gagn.“

Steingrímur nefnir þó, í meira gríni en alvöru, að hann gæti hugsað sér eina sendiherrastöðu en það yrði þá að verða fyrsti sendiherra Íslands í sjálfstæðum Færeyjum.

Nánar er rætt við Steingrím J. í Viðskiptablaðinu. Þar fer hann í stuttu máli yfir kjörtímabilið sem brátt er á enda og ástæður þess að hann kýs að hætta sem formaður VG á þessum tíma.