Katrín Júlíusdóttir iðnaðarráðherra segist ekki vita til þess að ríkisstjórnin sé með afskiptum sínum af málefnum HS Orku að reyna að koma í veg fyrir að erlendir aðilar eignist stóran hlut í félaginu.

„Það er vilji til þess í ríkisstjórn að búa til sterkan meðaðila með þessu erlenda fjármagni inni í [HS Orku]," sagði hún við blaðamann Viðskiptablaðsins eftir ríkisstjórnarfund á þriðjudag.

Samkvæmt örkulögum sem samþykkt voru í stjórnartíð Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks með atkvæðum þingmanna allra flokka nema  Vinstri grænna á Alþingi í lok maí 2008 eru engar hömlur á eignarhaldi fyrirtækja sem stunda vinnslu og sölu á raforku. Undir þann hatt fellur HS Orka.

Samt hefur ríkisstjórnin ákveðið að hlutast til um eignarhaldið eins og meðal annars kemur fram í yfirlýsingu frá fjármálaráðuneyti og iðnaðarráðuneyti á mánudag.

Vinstri grænum mikið hjartans mál

Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra og formaður Vinstri grænna, segir þegar hann er spurður út í þetta að sú stefna sem ríkisstjórnin hafi nú markað í þessu máli sé auðvitað pólitísk. „Þetta er pólitík og hún samræmist vel lögum," svarar hann þegar hann er spurður út í þessi mál.

Hann segir sömuleiðis að það sé engin launing á því að þetta sé Vinstri grænum mikið hjartans mál. „Það hefur verið gerð mjög rík krafa á okkur, forystumenn Vinstri grænna, að við beitum okkar áhrifum til að verja auðlindirnar og orkugeirann eins og við mögulega getum. Það munum við reyna að gera."

Ríkisstjórnin féll á tíma

Eins og fram hefur komið í fjölmiðlum samþykkti stjórn Orkuveitu Reykjavíkur í vikunni tilboð kanadíska félagsins Magma Energy í tæplega 32% hlut Orkuveitu Reykjavíkur í HS Orku. (OR á um 16,58% hlut í fyrirtækinu og hafði jafnframt skuldbundið sig til að kaupa tæplega 15% hlut Hafnarfjarðarbæjar).

Áður en tilboðið var samþykkt fékk ríkisstjórnin tíu daga frest til að kanna mögulega aðkomu hennar að viðskiptunum.

„Við veltum upp ýmsum möguleikum í þessum efnum," segir Steingrímur. „Einn var sá að ríkið í samstarfi við fleiri aðila gengi inn í þessi kaup. Það vannst hins vegar ekki tími til þess að safna þeim hópi saman svo hægt væri að gera skuldbindandi tilboð. Við féllum á tíma með það og það fékkst ekki meiri frestur. Þetta hefur engu að síður skilað því að nú hafa ákveðnir aðilar ákveðið að mynda vinnuhóp og skoða málin í framhaldinu."

Málið var ítarlega rætt á fundi ríkisstjórnarinnar á þriðjudag og er búist við að það verði aftur á dagskrá eftir helgi.

Nánar er fjallað um þetta mál í Viðskiptablaðinu í dag.