Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri grænna sakaði ríkisstjórnina fyrir stundu um að vera annað hvort ósamstíga eða hafa viljandi hagrætt sannleikanum í málum tengslum við aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Þetta kom fram í umræðu á Alþingi fyrir stundu en þar er nú til umræðu skýrsla forsætisráðherra um efnahagsmál og aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF).

Steingrímur sagði ráðherra ríkisstjórnarinnar vera með mismunandi útskýringar á stýrivaxtahækkun Seðlabankans í vikunni.

Á meðan fjármálaráðherra og forsætisráðherra segðu að stýrivaxtahækkunin hefði verið skilyrði af hálfu IMF héldi utanríkisráðherra því fram að stýrivaxtahækkunin hefði verið ákveðin af ríkisstjórninni.

Þá sagði Steingrímur að einnig væri á reiki hvort upplýsa mætti um þau skilyrði sem væri í samkomulagi milli ríkisstjórnarinnar og IMF. Á meðan ráðherrar ríkisstjórnarinnar segðu að samningurinn væri trúnaðarmál og ekki mætti fjalla um einstök atriði hans hefðu talsmenn IMF sagt að það væri undir ríkisstjórninni komið hvort atriði hans yrðu upplýst eða ekki.