Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, sagði á vaxtaákvörðunarfundi Seðlabankans í gær að tölur Hagstofunnar um hagvöxt væru verulega á skjön við aðrar vísbendingar um þróun eftirspurnar. Tölurnar sýndu hægan vöxt einkaneyslu og gengu þvert á fyrri spár Seðlabankans. Már sagði bankann telja ástæðu til að túlka tölurnar með mikilli varúð og ýmsar vísbendingar væru um að eitthvað hefði farið úrskeiðis við mælinguna.

Rósmundur Guðnason, sviðsstjóri efnahagssviðs Hagstofunnar, er hins vegar ósammála þessu. „Þetta er bara hluti af þessari reglubundnu vinnu okkar og það er ekkert í þessum niðurstöðum sem við höfum séð ástæðu til að breyta,“ segir hann í samtali við Fréttablaðið . Hann segir þó hugsanlegt að hluti af tölum um innflutning á þriðja ársfjórðungi eigi ekki eftir að skila sér fyrr en á fjórða ársfjórðungi og niðurstaðan sé ekki ljós fyrr en eftir árið.