Skuldabréfaútgáfa er í skoðun hjá fjármálaráðuneytinu en með henni á að endurgreiða síðasta hluta neyðarlána Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS), Norðurlandanna og Póllands, samtals um 1,8 milljarða dala. Lán AGS eru á gjalddaga á næstu tveimur árum en hin allt aftur til ársins 2021. Lán upp á 200 milljónir dala, sem er á gjalddaga í næsta mánuði, verður að líkindum greitt upp í samræmi við tilætlanir stjórnvalda að grynnka á skuldum ríkisins.

Fram kemur í umfjöllun Bloomberg-fréttaveitunnar um málið að vaxtaálagið á skuldabréfunum sem Ísland gaf út árið 2011 hafi lækkað úr rúmum 5% niður í 2,6% á eftirmarkaði. Svipuðu máli gegnir um álag á skuldabréfunum sem gefin voru út fyrir tveimur árum en það hefur lækkað úr rúmum 6% í 4,9%. Þessi þróun gefur til kynna að kjör ríkisins hafi batnað, að sögn Bloomberg.

Stjórnvöld fengu 4,6 milljarða dala að láni í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008 og á eins og áður sagði eftir að greiða 1,8 milljarða, jafnvirði um 202 milljarða íslenskra króna sem jafngildir um 12% af landsframleiðslu.