Yfir þriðjungur bandarískra launþega ýmist íhugar eða undirbýr nú að segja upp starfi sínu, lang flestir á næstu 6 mánuðum, samkvæmt könnun Yahoo Finance.

Helstu ástæður sem svarendur gáfu voru betri tækifæri annarsstaðar (46%), hærri laun (42%), betra jafnvægi vinnu og einkalífs (34%), starfsgreinaskipti (27%), og ánægjuleysi í starfi (27%).

Í frétt Yahoo um málið er haft eftir hagfræðingi að það sé einfaldlega ofgnótt góðra starfa laus um þessar mundir. Sprenging hafi orðið í ráðningarkaupaukum (e. signing bonus), og fjöldi starfa sem bjóða 4 daga vinnuviku tvöfaldast.

Niðurstöður könnunarinnar – sem taldi 1.639 svarendur – eru í samræmi við þróun síðustu mánaða. Met var slegið í apríl þegar 2,8% launafólks sagði starfi sínu lausu, og hlutfallið hélst hátt í maí í 2,5%. Hæst var hlutfallið í matvæla- (5,7%) og smásölu (4%).