Í nóvember nam erlend kortavelta 15,3 milljörðum króna og er það 67% aukning frá sama mánuði í fyrra. Það sem af er þessu ári hafa erlendir ferðamenn straujað kort sín fyrir um 217 milljarða króna. Þetta kemur fram í samantekt Rannsóknarseturs verslunarinnar, sem að Háskólinn í Bifröst heldur úti.

„Greiðslukortavelta fyrstu ellefu mánuði ársins er því um helmingi meiri en á sama tímabili í fyrra og 41% meiri en allt árið 2015. Nóvember er jafnan rólegur mánuður í ferðaþjónustu og er það til marks um mikinn vöxt greinarinnar að greiðslukortavelta undangengins nóvembermánaðar var svipuð og í júlí 2013,“ segir meðal annars í samantektinni.

170% aukning í flugi

Gífurleg aukning hefur verið í farþegaflutningum með flugi, kortavelta erlendra ferðamanna hefur aukist um 170% frá fyrra ári, en flokkurinn er sá stærsti í tölum Rannsóknarsetur verslunarinnar. Velta flokksins í nóvember einum nam ríflega 3,6 milljörðum, hluti af þeirri veltu stafar af erlendri starfsemi flugfélaga.

Einnig var talsverður vöxtur í öðrum flokkum sem tengjast samgöngum ferðamanna. Til að mynda jókst kortavelta bílaleiga um 68,3% milli ára og velta flokksins „Bensín, viðgreinir og viðhald,“ jókst um 84,6%.

„Þrátt fyrir styrkingu krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum er enn gífurleg aukning í  sérsniðnar ferðir um landið með leiðsögn samkvæmt því sem kemur fram í flokknum „Ýmis ferðaþjónusta“. Þannig njóta skoðunarferðir um landið ekki síður vinsælda í skammdeginu en á sumrin. Kortavelta í þessum útgjaldaflokki jókst um 78,2% frá nóvember í fyrra og nam tæpum 2,5 milljörðum króna í mánuðinum,“ segir einnig í frétt Rannsóknarseturs verslunarinnar.

Yfir helmingsaukning í veltu gististaða

Yfir helmingsaukning var í veltu gististaða í nóvember, samanborið við sama tímabil í fyrra, en erlend greiðslukortavelta gististaða jókst um 57,3% frá fyrra ári og nam tæpum 2,6 milljörðum samanborið við 1,6 milljarð í nóvember 2015. Erlendir ferðamenn greiddu jafnframt 1,6 milljarð með kortum sínum á íslenskum veitingastöðum, sem er 45,1% aukning milli ára.