Fjármálaeftirlitið hefur veitt Straumi fjárfestingabankaleyfi. Félagið er í eigu í ALMC, gamla Straums. Straumur var yfirtekinn af kröfuhöfum í kjölfar greiðslustöðvunar í mars 2009.

Í tilkynningu frá Straumi segir að Straumur sé að mestu leyti í eigu erlendra fjárfesta og leggur áherslu á þjónustu á sviði markaðsviðskipta og fyrirtækjaráðgjafar. Starfsmenn eru um 25 talsins.

Pétur Einarsson, forstjóri Straums segir í tilkynningu: „Straumur er sjálfstæður og óháður fjárfestingabanki með öflugan hóp starfsmanna. Í því felst helsti styrkleiki okkar. Á Íslandi eru fjölmörg tækifæri til uppbyggingar. Það er mikið verk framundan og Straumur vill leggja sitt af mörkum við að endurreisa og styrkja íslenskt atvinnulíf. Nú er meiri þörf en nokkru sinni áður á fjárfestingu í íslensku atvinnulífi. Þar tel ég að Straumur muni gegna mikilvægu hlutverki.“