Styrkur íslenska fjármálakerfisins er vanmetinn og Ísland er ekki jafn viðkvæmt eins og oft er látið í veðri vaka. Þetta kemur fram í úttekt Breakingviews.com um íslenska fjármálageirann en Breakingviews.com er sérhæfð fréttaveita og álitsgjafi á sviði fjármála.

Í upphafi úttektarinnar kemur fram að verðbólga á Íslandi sé há, 6,8% miðað við 2,5% verðbólgumarkmið Seðlabankans. Þá segir að skuldatryggingaálag viðskiptabankanna sé einnig hátt eða á milli 635 – 912 punktar. „Þrátt fyrir þetta er Ísland mjög athyglisvert fyrir þá sem hafa áhuga og vilja kynna sér málið frekar,“ segir George Hay, höfundur úttektarinnar.

Hay segir Ísland vera í augum margra auðvelt skotmark. Skuldarálag bankanna þriggja,  Kaupþings, Landsbanka og Glitnis er í hærra lagi, verðbólgan há, krónan hefur fallið um 30% gagnvart evrunni frá áramótum og ef einn bankanna yrði gjaldþrota gæti það haft keðjuverkandi áhrif á atvinnulífið vegna krosseignarhalds samkvæmt úttektinni.

Hay segir í úttekt sinni að svo virðist sem erlendir aðilar vilji tryggja slæma stöðu íslensku bankanna. „Markaðurinn sendir reglulega þau skilaboð að einhver bankanna sé að fara á hausinn og verðbólgan haldi áfram að hækka,“ segir Hay.

Í úttekt Hay segir að alþjóðir fjárfestar myndu öllu jafna hafa áhyggjur af þeim aðstæðum sem eru á Íslandi. „Það sem hins vegar ýtir undir ringulreiðina sem skapast stundum í kringum Ísland er hópur um 40 vogunarsjóða sem allir hafa hagsmuni að því að íslensku bankarnir hrynji,“ segir Hay. Þegar skuldatryggingaálagið er orðið svona hátt hafa sjóðirnir hagsmuni af því að íslensku fyrirtækin tapi miklu fé.

Hann segir að vissulega séu áhyggjur skiljanlegar. Hann segir að erfitt sé fyrir utanaðkomandi aðila að skilja gífurlega hraðan vöxt bankanna og í greininni kemur fram að íslenski fjármálageirinn sé átta sinnum stærri en þjóðarframleiðsla landsins.

Hins vegar er Ísland er ekki eins varnarlaust eins og það lítur út fyrir, segir Hay. Í vangaveltum um hátt skuldatryggingaálag vilji grundvallaratriðin og sterkur bakgrunnu fjármálakerfisins oft gleymast. Bankarnir hafi til að mynda ekki mikið fjármagn í undirmálalánum og eru ekki viðkvæmir fyrir þeim erfiðleikum sem þar eru núna. Gjaldeyrisstaða Seðlabankans og trúverðugleiki bankans eru vel styrktir, segir í úttektinni.

Þá er einnig minnst á Davíð Oddsson, seðlabankastjóra. Fram kemur að Davíð hafi undanfarið talað af mikilli hörku um verðbólguna og hann sé staðráðinn í að koma verðbólgunni nær verðbólgumarkmiði Seðlabankans. „Það þýðir að stýrivextir bankans sem nú eru 13,75% verði áfram háir sem er vissulega óþægilegt fyrir Íslendinga sjálfa en gæti laðað að fjárfesta sem vilja ávaxta fé sitt,“ segir Hay.

Í lok greinarinnar er minnt á samkomulag milli norrænu Seðlabankanna frá árinu 2003 þar sem þeir skuldbindi sig til að lána fjármagn lendi einn þeirra í vandræðum. Þá segi að þótt sumir kunni að líta á það sem veikleikamerki felist engu að síður ákveðið öryggi í því að íslensku bankarnir skuli hafa slíkt öryggisnet lendi þeir í erfiðleikum.

„ Íslensku bankarnir hafa þegar farið í gegnum álagspróf og staðist það. Þannig að Ísland er ekki eins viðkvæmt og varnarlaust eins og sumir álitsgjafar hafa látið í veðri vaka,“ segir í lok úttektar Breakingviews.com.