Nýtt fjölmiðlafrumvarp menntamálaráðherra er aðför að tjáningarfrelsi og frelsi fjölmiðla sem er ekki réttlætanleg í lýðræðislegu samfélagi.

Þetta segir í tilkynningu frá Sambandi ungra sjálfstæðismanna (SUS) þar sem nýju frumvarpi menntamálaráðherra um fjölmiðla er harðlega mótmælt.

Ungir sjálfstæðismenn segja hættu á því að nýtt fjölmiðlafrumvarp gleymist innan allra stóru málanna sem Alþingi ætti að vera að glíma við meðan heimili landsins fást við mikinn vanda. Sá skaði sem frumvarpið mun leiða af sér, verði það að lögum, verði hins vegar seint bættur, þar sem hætta sé á að minni fjölmiðlafyrirtæki gefist upp eða verði gjaldþrota vegna ýmissa takmarkanna sem frumvarpið mælir fyrir um.

„ Þá er það álit ungra sjálfstæðismann að fjölmiðlalög séu með öllu óþörf og ekkert kalli á almenna lagasetningu um fjölmiðla frekar en aðrar starfsgreinar,“ segir í tilkynningunni.

„Ungir sjálfstæðismenn telja að með nýju fjölmiðlafrumvarpi sé alltof hart gengið í að takmarka frelsi fjölmiðla. Þannig verður bannað að sýna bannaðar bíómyndir fyrr en eftir kl. 21 á kvöldin, bannað að auglýsa á meðan á barnatíma stendur og mælst til þess að 50% dagskrárefnis fjölmiðla verði frá Evrópu. Ljóst er að þessi takmörkun á frelsi fjölmiðla kemur þeim fyrirtækjum mjög illa sem hafa mestar sínar tekjur af auglýsingum.“

Þá telja ungir sjálfstæðismenn það fráleitt að mælast til þess að 50% dagskrárefnis fjölmiðla sé frá Evrópu, enda hafi eftirspurnin eftir slíku ekki verið mikil á Íslandi og það sé ekki í verkahring stjórnvalda að velja sjónvarpsefni fyrir landsmenn „þó augljóst sé að núverandi ríkisstjórn vilji hafa sem mest afskipti af hegðun og lífsmáta almennings,“ eins og það er orðað í tilkynningu SUS.

Fjölmiðlalögregla sett á fót

Þá segja ungir sjálfstæðismenn að einn stærsti galli frumvarpsins felist í stofnun þess sem þeir kalla nokkurs konar fjölmiðlalögreglu ríkisins, Fjölmiðlastofu, sem mun samkv. frumvarpinu hafa ríkt eftirlitshlutverk með bæði dagskrárefni og fjárreiðum fjölmiðlafyrirtækja.

„Með stofnun Fjölmiðlastofu mun ríkið grúfa yfir höfði fjölmiðla og þeir eiga á hættu að vera sektaðir ef ekki er farið eftir fyrirmælum þessarar miðstýrðu stofnunar, sem m.a. getur skipt sér af dagskrá fjölmiðlanna,“ segir í tilkynningu SUS.

Ítreka andstöðu sína við fjölmiðlarekstur ríkisins

Þá segja ungir sjálfstæðismenn að það veki athygli hversu þögult frumvarpið sé um takmörkun á eignarhaldi fjölmiðla. Ungir sjálfstæðismenn ítreka þó að eignarhald fjölmiðla eigi almennt ekki að vera takmarkað heldur eigi hverjum og einum að vera frjálst að eiga fjölmiðil líkt og önnur fyrirtæki. Hins vegar mættu almennar upplýsingar um eignarhald fjölmiðla vera ljósari að mati SUS.

„Ungir sjálfstæðismenn hafa ávallt talað fyrir frelsi fjölmiðla á öllum sviðum sem og stutt það að framboð og eftirspurn eigi að stjórna bæði dagskrárefni fjölmiðla og auglýsingamagni,“ segir í ályktuninni.

„Lögmálum markaðarins er í raun gefið langt nef í nýju frumvarpi menntamálaráðherra með ýmsum takmörkun auglýsinga. Eðlilegra hefði verið að mæla fyrir um það að Ríkisútvarpið yrði tekið af auglýsingamarkaði, bæði til að rýmka möguleika annarra fjölmiðlafyrirtækja á því að auka tekjur sínar og til að koma í veg fyrir að ríkisstofnun sé að keppa við einkaaðila. Að lokum ítreka ungir sjálfstæðismenn fyrri skoðun sína um að Ríkisútvarpið verði selt eða lagt niður og að ríkið hætti rekstri fjölmiðla.“