Eigendur Frumtak Ventures, þau Eggert Claessen og Svana Gunnarsdóttir hafa skipt á stöðu hjá félaginu. Svana verður framkvæmdastjóri og Eggert fjárfestingastjóri. Frumtak Ventures er umsýsluaðili Frumtaksjóðanna sem eru samtals um 9 milljarðar að stærð og í eigu helstu lífeyrissjóða og banka landsins auk ríkisins.  Þau vinna nú að stofnun nýs sjóðs, Frumtak III sem væntanlega tekur til starfa á næsta ári. Greint er frá þessu í fréttatilkynningu.

Svana hóf störf sem fjárfestingastjóri hjá Frumtaki í febrúar 2009. Hún hefur mikla reynslu af stofnun og rekstri sprota og frumkvöðla-fyrirtækja sem og samruna og yfirtöku. Svana er með alþjóðlega meistaragráðu frá Nyenrode University í Hollandi, hluti af því námi var við Kellogg School of Management í Bandaríkjunum og Stellenbosch University í Suður Afríku. Svana hefur þar að auki lokið prófi í verðbréfaviðskiptum.

Svana hefur einnig komið að stjórnarsetu og gengt ýmsum trúnaðarstörfum í öðrum sprotafyrirtækjum. Hún kom að stofnun Framís sem eru samtök framtaksfjárfesta í nýsköpun og er samstarfsvettvangur sem vinnur að eflingu vistkerfis framtaksfjárfestinga á Íslandi.

Hún hefur setið í stjórnum þeirra félaga sem eru í eignasafni Frumtaks og situr nú í stjórn Meniga, Trackwell, MainManager, Arctic Trucks, Mentor, Tulipop og Framís.

" Fjárfestingar í nýsköpun eru mikilvægur drifkraftur í sköpun atvinnutækifæra þar sem tækniframfarir stuðla að uppsprettu nýrra hugmynda og fjölbreytni atvinnulífs samfélagsins. Það er spennandi áskorun að vera þáttakandi í áherslubreytingu hagkerfisins sem í sífellt ríkara mæli færist úr auðlindadrifinu yfir í hugvitsdrifnara hagkerfi án landamæra. Það eru einnig forréttindi að vinna með öllu þessu djarfhuga fólki sem þorir að láta draumana rætast," er haft eftir Svönu í tilkynningunni.

Þá segir í tilkynningunni að Frumtak hafi nú þegar fjárfest í 21 fyrirtæki sem velti tæpum 7 milljörðum á ári, þar af séu um 70% erlendar tekjur sem hafi skapast við útflutning á hugviti og sé afrakstur u.þ.b 700 starfsgilda.