*

fimmtudagur, 28. maí 2020
Innlent 22. maí 2020 15:15

Sýknaður af ákæru um skattalagabrot

Sindri Sindrason, fyrrverandi forstjóri Pharmaco, var í byrjun mánaðar sýknaður af ákæru um skattalagabrot og peningaþvætti.

Jóhann Óli Eiðsson
Haraldur Guðjónsson

Sindri Sindrason, fyrrverandi forstjóri Pharmaco, var í Héraðsdómi Reykjaness í byrjun mánaðar sýknaður af ákæru um skattalagabrot og peningaþvætti. Að mati dómsins gengu skýringar á greiðslum til einkahlutafélags hans „ekki upp að öllu leyti“ en þó ekki svo haldslausar að til sakfellingar kæmi.

Sindri var upphaflega ákærður fyrir að hafa skilað efnislega röngum skattframtölum fyrir tekjuárin 2010-2014 með því að hafa ekki talið fram með fullnægjandi hætti tæplega 122 milljónir króna frá tveimur félögum, það er hinu danska Larsen Danish Seafood A/S og þýsku dótturfélagi þess Larsen Danish Seafood GmbH. Þá var hann ákærður fyrir peningaþvætti fyrir að hafa nýtt tæplega 56 milljónir króna af hinum meinta ávinningi í eigin þágu.

Málið hófst með rannsókn skattrannsóknarstjóra (SRS) í febrúar 2016 í kjölfar þess að nafn Sindra kom fyrir í gögnum um eign Íslendinga á félögum í lágskattaríkjum. Málið var sent ríkisskattstjóra sem breytti framtölum þeirra gjaldára sem um ræddi. Var tekjuskattstofn hækkaður um tæplega 122 milljónir króna og 25% álag lagt á hann.

Sindri undi þessu ekki og kærði niðurstöðuna til yfirskattanefndar (YSKN). Byggði hins vegar á því að líta bæri á greiðslurnar sem greiðslur upp í kröfur sem hann átti á félögin tvö vegna tiltekinna útgjalda sem hann hefði staðið straum af. Þá væru þarna einnig á ferð þjónustutekjur á grundvelli framsals Sindra á réttindum samkvæmt þjónustusamningi til félags í eigin eigu.

Nefndin féllst á niðurstöðu SRS að stærstum hluta enda bæru greiðslurnar öll merki þess að hafa í raun verið launagreiðslur fyrir vinnuframlag hans. Þó var ekki fallist á að svo hefði verið í öllum tilfellum og tekjuskattstofninn lækkaður um tæplega 15 milljónir króna frá því sem ríkisskattstjóri hafði úrskurðað. Niðurfellingu álags var hafnað. Ákæra í sakamálinu var gefin út í apríl í fyrra en upphæðir hennar voru færðar niður eftir að niðurstaða YSKN lá fyrir í desember í fyrra.

„Upplýst er [...] að ekki hvíldi leynd af hálfu [Sindra] og [...] yfir greiðslunum, sem tekjufærðar voru hjá einkahlutafélaginu. Það er aftur á móti rétt sem ákæruvaldið hefur vísað til að skýringar [Sindra] á þeim greiðslum sem hann fékk frá hinum erlendu félögum ganga ekki upp að öllu leyit. Að mati dómsins eru þær skýringar þó alls ekki haldlausar,“ segir meðal annars í niðurstöðu dómsins.

Skýringarnar sem ekki voru teknar gildar í stjórnsýslumálinu fyrir YSKN urðu því til þess að ekki þótti sannað með óvefengjanlegum hætti að brotið hefði verið gegn tekjuskattslögunum. Sindri var því sýknaður af ákærunni. Málskostnaður, rétt tæplega fjórar milljónir króna, greiðist úr ríkissjóði.