Samkvæmt tölum frá Seðlabanka Íslands voru tekjur af varnarliðinu í fyrra 8,2 milljarðar eða um 2,3% af útflutningstekjum og 0,8% af vergri landsframleiðslu, segir greiningardeild Kaupþings banka.

Bandarísk stjórnvöld kynntu ríkistjórn Ísland í gær áform um draga verulega úr starfsemi Bandaríkjahers hér á landi síðar á þessu ári.

Ísland hefur verið eina vestræna ríkið sem ver engum innlendum fjármunum til landvarna en líklegt er að það muni breytast með brotthvarfi Bandaríkjahers.

Landhelgisgæslan hefur gefið út að hún telji þörf á tveimur flugvélum og þremur þyrlum ef varnarliðið hverfur á brott og á fimmta tug manna til að manna þær áhafnir, segir greiningardeildin.

Árið 2004 voru útgjöld til varnarmála í Danmörku um 1,5% af VLF og um 1,8% í Noregi, segir greiningardeildin.

Ef slík hlutföll eru yfirfærð á Ísland gæti það verið um 17-19 milljarðar á ári.
Íslendingar haft verulegan hag af veru varnarliðsins, segir greiningardeildin og nefnir að Bandaríkjamenn hafi tryggt almennar landvarnir að kostnaðarlausu og hafi veitt ýmsa þjónustu sem að öðru óbreyttu myndi hafa kostað íslenska ríkið talsvert fé.

Umsvif varnarliðsins hafa skapað ýmsar óbeinar tekjur fyrir hagkerfið, til að mynda hjá fyrirtækjum í verslun og þjónustu.