Greiningardeild KB banka hefur gefið út nýtt verðmat á Jarðborunum í þeim tilgangi að leggja mat á væntanlegt yfirtökutilboð Atorku Group til hluthafa félagsins. Niðurstaða verðmatsins er rúmlega 12 ma.kr. virði hlutafjár félagsins sem gefur verðmatsgengið 31,1 krónu á hvern hlut. Það er töluvert hærra en það yfirtökuverð sem Atorka hefur boðið.

Umtalsverðar breytingar urðu á hluthafahópi Jarðborana fyrir skömmu og hefur nú myndast yfirtökuskylda af hálfu Atorku Group í félagið. Miðað við undangengin viðskipti telur greiningardeild KB banka mjög sennilegt að Atorka Group muni bjóða núverandi hluthöfum félagsins að selja hluti sína á genginu 25 í skiptum fyrir hluti í Atorku á genginu 6. "Niðurstaða okkar er að tilboð upp á 25 krónur á hlut endurspegli ekki þau verðmæti sem fólgin eru í rekstri Jarðborana og getur því ekki mælt með að hluthafar Jarðborana taki tilboðinu, verði skilmálar þess eins og fyrr er greint. Að auki teldum við það slök býtti að skipta á bréfum í Jarðborunum og Atorku Group," segir greiningardeild KB banka.